„Mér fannst við svo sem ekkert í basli með Keflavík til að byrja með, við vorum bara að venjast aðstæðum á blautum velli í miklum vindi en markið kom loksins með þolinmæði,“ sagði Elísa Viðarsdóttir fyrirliði Valskvenna eftir 5:0 sigur á Keflavík þegar liðin mættust í Keflavík í efstu deild kvenna í fótbolta, Bestu deildinni.
Keflvíkingar börðust af krafti með agaða vörn en það dugði ekki til. „Við vissum svo sem að Keflvíkingar væru með þétta vörn og það er erfitt að brjóta hana á bak aftur en við ætluðum að skjóta þegar færi gæfist en líka reyna brjótast á bak við vörn þeirra og keyra inní teiginn og við fundum leiðina að markinu þeirra,“ sagði Elísa.
Eftir sigur Vals í Keflavík og jafntefli Breiðabliks gegn Stjörnunni í kvöld skilja 4 stig liðin að í baráttu um efsta sæti deildarinnar. Nóg er eftir og fyrirliðinn leggur meiri áherslu á sigur og hreint mark en stóra sigra. „Við erum ekkert að spá í hvort markahlutfall okkar skiptir máli. Okkar gildi eru að fara í hvern leik þannig að hver og einn hafi sitt eigið líf. Við einbeitum okkar bara að einum leik í einu og erum ekkert að spá í mörkin. Erum bara ánægðar með að halda okkar marki hreinu og taka þrjú stig í hverjum leik.“