Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir frumvarpinu sem allir þingmenn flokksins nema ráðherrar og forseti Alþingis standa að. Hann benti á að stjórnarskráin tryggi félagafrelsi og kveði á um að engan megi skylda til að vera í félagi en þó megi kveða á um slíka skyldu sé það nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna. „Þrátt fyrir þessi skýru ákvæði 74. greinar stjórnarskrárinnar er félagafrelsi í raun ekki virt á íslenskum vinnumarkaði. Almenn löggjöf takmarkar rétt manna til að velja sér félag eða standa utan félags og þar er gengið lengra en í nágrannalöndum okkar.“ Óli Björn sagði að úrskurðir dómstóla hefðu ekki tekið mið af stjórnarskrárbreytingum frá 1995 sem áttu að tryggja félagafrelsi. Hann sagði lög um opinbera starfsmenn leggja greiðsluskyldu á starfsfólk hvort sem það veldi að vera í stéttarfélagi eða ekki en að þetta væri óskýrara í lögum um almennan markað.
Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja rétt launamanna til að velja sér stéttarfélag, banna forgangsréttarákvæði í kjarasamningum, afnema greiðsluskyldu og verja rétt launamanna til að standa utan stéttarfélaga, sagði Óli Björn. „Ólíkt öðrum vestrænum ríkjum hefur vinnumarkaðslöggjöfin hér á landi ekki tekið fullnægjandi breytingum til að tryggja félagafrelsi á íslenskum vinnumarkaði.“
Sjálfstæðismenn ganga á lagið
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, andmælti frumvarpinu. „Nú þegar það geisa átök í verkalýðshreyfingunni ætla Sjálfstæðismenn aldeilis að ganga á lagið, þvílík tímasetning segi ég bara. Í síðustu viku mæltu þingmenn flokksins fyrir frumvarpi um að skerða réttindi á opinbera vinnumarkaðinum og draga úr starfsöryggi þeirra. Í dag mæla þingmenn flokksins fyrir talsvert róttækari breytingunum. Nú vilja þeir fara að naga fæturna undan verkalýðshreyfingunni í heild sinni og höggva að rótum þess sem gerir hreyfinguna jafn sterka á Íslandi og raun ber vitni.“ Stéttarfélagsvirkni er hvergi meiri í OECD en hérna, sagði Jóhann Páll. Hann sagði stéttarfélög hafa veikst annars staðar vegna framgöngu hægri manna. Jóhann Páll sagði að 92 prósenta stéttarfélagsaðild hér á landi væri óumdeilanlega vegna greiðsluskyldu og það hefði gert stéttarfélögin sterk. Nú ætti hins vegar að grafa undan þessu. Hann spurði hvort það væri nokkuð nema eðlilegt að fólk sem nyti góðs af starfi stéttarfélaga, sem semji meðal annars um lágmarkslaun fyrir alla, greiði fyrir það sem verk njóti góðs af.
Firra að launamenn standi verr hér en annars staðar
Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, sagði það jákvætt í frumvarpinu að atvinnurekandi mætti ekki banna starfsmanni sínum að vinna fyrir annað fyrirtækið. Hann kvaðst þó ekki vita til þess að atvinnurekendur gætu gert þetta út frá núverandi löggjöf. Hann vísaði í álitsgerð stjórnarskrárnefndar við setningu mannréttindakafla stjórnarskrárinnar 1995. Þar hefði verið kveðið á um að engan mætti skylda til félagsaðildar en tekið fram að ekki þyrfti að breyta vinnumarkaðslöggjöf vegna þess að þar væri þegar kveðið á um félagafrelsi. Þá hafi nefndin tekið fram að ekki væri verið að hrófla við því hvernig staðið væri að málum á vinnumarkaði svo sem um greiðslu félagsgjalda og forgangsákvæðum. Guðbrandur vísaði til 21 árs starfa sinna í stéttarfélögum. Hann sagði að það væri firra að halda því fram að launamenn væru verr staddir hér á landi en annars staðar á Vesturlöndum. „Við erum öfunduð alls staðar af þessu fyrirkomulagi,“ sagði hann um kjarasamningsbundin réttindi, það væri sú gulrót sem stéttarfélögin hefðu búið til svo fólk sæi sér hag í því að vera í stéttarfélagi.
Samkeppni stéttarfélaga um félagsmenn
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, andmælti því að frumvarpið væri aðför að launafólki. „Ég skil ekki hvernig háttvirtur þingmaður geti komist að þeirri niðurstöðu að það að launamaðurinn hafi frelsi til að velja sér stéttarfélag sé einhver leið til að sundra verkalýðshreyfingunni.“ Hún sagði þingmenn Viðreisnar hafa gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn fyrir að vinna ekki að frelsismálum, nú sé mælt fyrir einu slíku og þá séu þingmenn Sjálfstæðisflokksins áfram gagnrýndir. Bryndís sagði að ætti að vera stéttarfélögum til góðs að þurfa að keppa sín á milli um félagsmenn.
Grundvallarmannréttindi
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, fagnaði því að fá tækifæri til að ræða grundvallarréttindi í þinginu. Hann sagði að félagafrelsi væri tryggt í stjórnarskrá og eflaust í huga allra þingmanna grundvallarmannréttindi. „Rétturinn til að koma saman og stofna með sér félag og öndverða þess þá, rétturinn til að standa utan félags.“ Bjarni sagði ríka ástæðu til að tryggja félagafrelsi. Síðustu tvo áratugi hefði verið gerð atlaga að því að færa vinnumarkaðinn nær norræna módelinu. SALEK hefði ekki náð fram að ganga og tilraunir til umbóta á vinnumarkaðsumhverfi á þeim nótum runnið út í sandinn. Hann sagði rétt einstaklingsins hafa fallið í skuggann af þessu. Nú væri tekið á dagskrá mál sem hefði lengi verið í umræðunni. Hann sagði að forgangsréttarákvæði kjarasamninga hefðu smám saman verið að víkja fyrir rétti einstaklingsins annars staðar en lítið hefði reynt á það hérlendis.
„Það hangir dálítið á þunnum þræði þegar jafn stórt álitamál og við erum að ræða hér hangir á tilvísun í nefndarálit Alþingis að það hafi ekki verið ætlunin að raska stöðu á vinnumarkaði með setningu ákvæðis í stjórnarskrá.“ Hann sagði löngu tímabært að taka á þessu máli, hann sagði aðila vinnumarkaðarins leggja áherslu á önnur mál og því gerðist líklega ekkert fyrr en einhver léti reyna á þetta fyrir dómi eða þingið setti um þetta lög. Bjarni sagði að vel væri hægt að virða grundvallarmannréttindi eins og félagafrelsið og tryggja um leið að stéttarfélög geti sinnt sínu hlutverki. „Það er verið að færa fórnir að óþörfu.“