15 samtök, sem annað hvort hafa réttindi hinsegin fólks eða kvenréttindi að aðalbaráttumáli sínu, krefjast þess að Sundsamband Íslands dragi atkvæði sitt, sem snýr að þátttöku transkvenna í sundkeppnum, til baka eða biðji transfólk í það minnsta afsökunar á atkvæðinu.
„Þann 19. júní bárust fréttir af því að Alþjóðasundsambandið (FINA) hefði samþykkt nýjar reglur sem banna trans konum að keppa í kvennaflokki á heimsmeistaramótum í sundgreinum. Sundsamband Íslands (SSÍ) kaus með reglunum þrátt fyrir að þær byggi á mismunun og útilokun á trans fólki, og sérstaklega trans konum,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum.
„Í Kastljósviðtali þann 20. júní hélt Björn Sigurðsson, formaður SSÍ, því fram að með þessu atkvæði væri SSÍ ekki að tala um eða við trans börn og konur á Íslandi. Þetta er hreinlega ósatt. Öll sem hafa æft íþróttir með þann draum að verða afreksíþróttafólk vita að sá draumur byrjar á mjög ungum aldri. Þegar íþróttafólki, hvort sem er börnum, unglingum eða fullorðnum, er sagt á þau geti æft eins og þau vilja en að þau muni ekki vera velkomin á afreksmót, þá er það mismunun. Þetta eru nákvæmlega þau skilaboð sem SSÍ hefur sent trans sundfólki á Íslandi, sérstaklega trans konum. Í Kastljósviðtalinu kom einnig í ljós að SSÍ hafði ekki kynnt sér málin til hlítar áður en þau tóku þá afdrifaríku og gildishlöðnu ákvörðun að kjósa með mismunun og fordómum. “
„Ógnvænleg“ þögn
Í yfirlýsingunni segir að þögn hafi ríkt á meðal allra annarra íslenskra íþróttabandalaga, m.a. hjá Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ), um málið og að sú þögn sé „ógnvænleg“,
„Við getum ekki sæst á að þetta alvarlega mál drukkni í þrúgandi þögn og aðgerðaleysi. Við getum ekki sæst á að íþróttasamfélagið láti eins og ekkert hafi gerst, láti eins og það sé eðlilegt að mismuna einum samfélagshóp á þennan afdráttalausa hátt,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.
Þau gera, eins og áður segir, kröfu um að SSÍ dragi atkvæði sitt til baka en ef það er ekki hægt krefjast þau þess að „sambandið gefi út opinberlega yfirlýsingu þar sem það segist ekki lengur geta staðið með atkvæðagreiðslu sinni og biður trans fólk afsökunar“.
Fleiri kröfur eru nefndar, m.a. sú að ÍSÍ fordæmi afstöðu SSÍ.
Samtökin sem skrifa undir yfirlýsinguna eru Argafas, Intersex Ísland, Femínistafélag Háskóla Íslands, Hinsegin Vesturland, Hinsegin Austurland, Kvenréttindafélag Íslands, Q – félag hinsegin stúdenta, Tabú – Femínísk Fötlunarhreyfing, Trans Ísland, Rauða Regnhlífin, Samtökin 78, Slagtog – Femínísk sjálfsvörn, Stelpur Rokka, Styrmir Íþróttafélag, Öfgar.