Fyrir tíu árum var þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs. Sex spurningar voru bornar upp; spurt hvort tillögurnar ættu að vera nýrri stjórnarskrá til grundvallar, hvort í stjórnarskrá ætti að lýsa náttúruauðlindir þjóðareign, hvort þar ætti að vera ákvæði um þjóðkirkju, hvort heimila ætti persónukjör til Alþingis í meiri mæli, hvort þar ættu að vera ákvæði um jafnt vægi atkvæða og ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.
Öllum játað
Þessum spurningum átti að svara með jái eða nei og meirihluti játaði þeim öllum – þótt atkvæðin væru mismörg. Flestir játuðu spurningu um náttúruauðlindir og tæpastur var meirihlutinn í spurningunni um þjóðkirkjuna. Kosningaþátttaka í heildina var um 49%. Ekkert varð þó af því að tillögurnar skiluðu sér inn í stjórnarskrá og síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Frumvarp forsætisráðherra náði ekki í gegn
Í fyrravor varð ljóst að frumvarp Katrínar Jakobsdóttur um afmarkaðar breytingar á stjórnarskrá, sem lutu meðal annars að verkefnum framkvæmdavaldsins, umhverfisvernd, náttúruauðlindum, íslenskri tungu og forseta Íslands kæmist ekki til efnislegrar meðferðar á þingi. Katrín lagði frumvarpið fram ein þegar ljóst var orðið að ekki næðist um það sátt og formenn stjórnmálaflokkanna höfðu þá átt 25 fundi um breytingar á stjórnarskrá. Þrisvar hafa forsætisráðherrar lagt fram stjórnarskrárfrumvarp í eigin nafni; ekkert náð fram að ganga, og um hundrað sinnum hafa þingmenn lagt fram frumvörp um stjórnarskrárbreytingar.
Fyrir síðasta kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, þegar margir bjuggust víð að hann byði sig ekki fram að nýju, gaf hann kost á sér og vísaði til þess að staða forseta væri ekki skýr í stjórnarskránni og tryggja þyrfti festu. Staðan er óbreytt.
Pattstaða tíu árum síðar
Umræðan um breytingar hefur oftar en ekki snúist um tillögurnar sem lagðar voru fram fyrir tíu árum. Spurningin hvar er nýja stjórnarskráin? hefur verið áberandi á götum og veggjum og jafnvel verið sungin. En er þetta allt í pattstöðu og er hægt að tala um nýja stjórnarskrá tíu árum eftir að tillögurnar urðu til? Ragnar Hjálmarsson doktor í stjórnarháttum, sem rannsakað hefur stjórnarskrána, var meðal frummælanda á ráðstefnu í Háskóla Íslands sem haldin var í tilefni þess að tíu ár eru frá þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ragnar talaði þar um stjórnarskrárferlið sem viðbragð við kreppu.
Aldrei dýpri skilningur á stjórnarskránni
Ragnar segir að við höfum aldrei skilið stjórnarskrána eins vel og hvaða umbætur þurfi að ráðast í. Nægar séu tillögurnar, þar á meðal tillögur stjórnlagaráðsins og nefndar sem undirbjó vinnu fyrir það. Hann nefnir líka tillögur sem komu fram í samtölum og á fundum formanna stjórnmálaflokkanna.
Málið er hins vegar að það hefur ekkert gerst. Við erum með fullt af góðum tillögum. Okkur vantar ekki tillögurnar en vantar að fókusera á ferlið.
Og hvernig við förum að því að breyta hefur áhrif á hvað stendur í henni segir Ragnar – en á það hafa menn kannski einblínt um of, velta því fyrir sér hvort það eigi að vera nýja stjórnarskráin, eða á að breyta þeirri sem fyrir er sem minnst. Á þessum tímapunkti telur Ragnar mikilvægt, ef brjótast á út úr pattstöðunni, að hugsa um ferlið. Ferlarnir sem stuðst hafi verið við hingað til hafi ekki reynst nægjanlega traustir og vel hannaðir.
Óskýrleiki stór galli
Íslendingar eru flinkir við að drífa hluti í gang en á stundum er kastað til höndum. Óskýrleiki háði stjórnlagaráðsferlinu að mati Ragnars. Staða þess var óskýr, umboðið líka og ekki síst var ekki skýrt hverju ætti að breyta eða hver vinnubrögðin skyldu vera og hver skuldbinding þingsins var gagnvart nýrri stjórnarskrá eða hvernig samskipti stjórnlagaráðs og Alþingis skyldu vera. Þá var ekki ljóst hvernig ætti að leita samþykkis almennings og þegar búið var að halda þjóðaratkvæðagreiðslu var ekki ljóst hvernig átti að fara með niðurstöður hennar.
Hinir ferlarnir sem hafa komið á eftir hafa líka haft sína galla og málið er að við þurfum núna að taka eitt skref til baka og draga á þekkingu og samanburðarlærdóma úr öðrum contextum og að semja um stjórnarskrárferlið.
Það sé ekki hægt að hanna einungis á skrifstofu í ráðuneyti heldur verði það að spretta af pólitískum samræðum. Hér sé að alast upp kynslóð sem með réttu eða röngu finnist að hún hafi verið svikin um nýja stjórnarskrá. Átök um stjórnarskrána skaði pólitískt traust í landinu og menn verði að gera betur.
Stjórnarskrármálið er mál sem hleypur ekki frá stjórnmálunum og þó að breytingar verði ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar og kannski ekki á næsta kjörtímabili að þá er það bara barnanna okkar til að sjá um það. Það er ekkert hægt að hlaupa frá þessu. Ákvörðunin er núna, ætlum við, okkar kynslóð, að gera þetta eða við ætlum að láta krakkana að gera þetta. En ég held að þau hafi nóg á sinni könnu.
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV