Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og fyrrverandi formaður Trans Ísland gagnrýnir ákvörðun Alþjóða sundsambandsins (e. FINA) harðlega, en í gær samþykkti sambandið að banna trans konum að taka þátt í kvennagreinum á afreksstigi í sundi. Fulltrúi Íslands kaus með tillögunni.
Rökstuðningurinn fyrir ákvörðuninni var sá að sögn Björns Sigurðssonar, formanns Sundsambands Íslands sá að það væri ósanngjarnt fyrir konur að keppa gegn einstaklingum sem hafa farið í gegnum kynþroskaskeiðið í öðru kyni.
Samkvæmt Uglu byggir ákvörðunin ekki á rannsóknum heldur ótta, útilokun og fordómum, en hún fjallar um málið á Facebook-síðu sinni í dag.
Bannað að vera hinsegin í sumum löndunum sem kusu með
Hún bendir á að trans konur hafi keppt með öðrum konum síðan á áttunda áratugnum, og segir ekkert benda til þess að trans konur sem uppfylli ákveðin skilyrði séu með ósanngjarnt forskot eða yfirburði yfir öðrum konum.
„Hluti þeirra landa sem kaus með þessu eru lönd þar sem það er ólöglegt að vera hinsegin – og sum kusu á móti banninu gerðu það því þeim fannst bannið ekki ganga nægilega langt. Pælið aðeins í því og hversu viðurstyggilegt það er.“ segir Ugla sem bætir við að umræðan um málið einskorðist yfirleitt um örfá dæmi í stað þess að snúast um heildarmyndina.
„Ef það væri eitthvað vandamál, þá værum við búin að sjá það. Raunveruleikinn er sá að það eru örfáar trans konur sem keppa í afreksíþróttum, og þetta fár um trans konur í íþróttum er gjörsamlega uppblásið og tekið úr samhengi. Heildarmyndin er sjaldan sýnd, heldur bara einstaka dæmi um trans konu sem gengur vel notað til að gefa ranga mynd af afrekum hennar, og hún sökuð um svindl eða yfirburði.“
Fólk sem hafi aldrei haft áhuga á kvennaíþróttum nú að skipta sér að
Þá skýtur Ugla á þá sem hafa barist fyrir banninu, og gefur til kynna að umræddir einstaklingar hafi ekki sýnt kvennaíþróttum áhuga áður, en geri það skyndilega í þessu tiltekna máli.
„Fólk sem hefur aldrei skipt sér af kvennaíþróttum er allt í einu mætt til að ‘vernda’ konur og kvennaíþróttir — en hafa aldrei vakið athygli á þeim raunverulegu vandamálum sem konur standa frammi fyrir í íþróttum.“
Ugla telur þá upp sjö hluti sem hún telur að íþróttahreyfingin ætti frekar að beina sjónum sínum að, en þeir eru eftirfarandi:
- A) launamun milli karla og kvenna innan íþrótta
- B) ójafnt aðgengi þeirra í verri efnahagsstöðu
- C) aðgengi að íþróttaaðstöðu og þjálfurum sem tekur mið af fjölbreytileika
- D) frekari rannsóknnum, eins og t.d. hvernig er hægt að koma í veg fyrir meiðsl
- E) aðgengi að barnapössun og aðstöðu fyrir börn á keppnismótum
- F) uppræta kynferðisofbeldi og andlegt ofbeldi, sem íþróttakonur verða fyrir í stórum mæli
- G) uppræta rasisma, hinseginfóbíu og fordóma gegn minnihlutahópum
„Dæmi um hvernig er vegið að réttindum okkar allra“
Í lok skrifa sinna segir Ugla að vissulega þurfi frekari rannsóknir og reglur til að tryggja að reglur séu sanngjarnar, en segir að umrætt bann byggi ekki sanngirni, heldur útilokun og fáfræði. Hún segir að bannið geri lítið annað en að útiloka trans fólk frá íþróttastarfi og þar með samfélaginu í heild. Auk þess segir Ugla að bannið muni veita fordómafullum einstaklingum og haturshópum byr undir báða vængi og líklegt að það verði til þess að „núverandi hatursalda styrkist enn frekar“.
„Þetta eru skelfilegar fréttir fyrir réttindabaráttu hinsegin fólks og er dæmi um hvernig er vegið að réttindum okkar allra, og hversu auðvelt það er að hrifsa þau af okkur.“ segir hún að lokum.