Kynþáttafordómar og útilokun eru vandamál í íþróttahreyfingunni, að sögn Semu Erlu Serdar, framkvæmdastýru Æskulýðsvettvangsins. Það sé þó vel hægt að uppræta þann vanda.
Máli sínu til stuðnings benti hún á að þekkt dæmi væru til staðar úr íslenskum íþróttum þar sem leikmenn hafa uppi niðrandi ummæli um hvorn annan vegna kynþáttar, áhorfendur og jafnvel þjálfarar láti falla niðrandi ummæli í léttúð sem hvetji leikmenn til að taka upp á því í framhaldinu.
Þá eigi sér einnig stað útilokun þar sem einstaklingar séu ekki valdir í lið, eigi þess ekki kost að nýta sér aðstöðuna með sama hætti eða taka þátt í fjölliðamótum, svo eitthvað sé nefnt.
Einhver verði að bera ábyrgð
Sema kynnti stefnu á málþingi um þátttöku barna af erlendum uppruna í skipulagðri íþróttastarfsemi, sem miðar að því að koma í veg fyrir mismunun í fjölmenningarsamfélagi íþróttahreyfingarinnar.
Stefnan inniheldur inngang, yfirlýsingu, markmið, aðgerðir til að ná markmiðum og ábyrgð. Sema segir ábyrgðarhlutann mikilvægan því ólíklegt sé að breytingar verði ef enginn ber ábyrgð á þeim.
Inngilding
Með innleiðingu stefnunnar skuldbindi íþróttafélögin sig til að stuðla markvisst að þessum verkefnum og inngildingu barna af erlendum uppruna.
Rétt hugtakanotkun skipti einnig miklu máli. Hugtakið „inngilding“ er það sem notað verður um aðgerðir samkvæmt stefnunni.
Börn af erlendum uppruna sem taki þátt í íþróttastarfsemi þurfi að upplifa að þau séu velkomin, þau séu virkir þátttakendur, tilheyri heild og upplifi öryggi.
Til þess að ná þessu þurfi félögin að láta verkin tala og Sema kynnti til leiks svokallaða verkfærakistu.
Afstaða félaganna þurfi að vera skýr varðandi það að líða ekki fordóma. Sporna þurfi gegn hatursorðræðu, ryðja hidrunum úr vegi og auka þátttöku barna af erlendum uppruna.
Mo Salah áhrifin
Þá er sýnileiki einnig grundvallaratriði. Sema minntist á „Mo Sallah áhrifin.“
Hún bendir á að Mohamed Salah, leikmaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool, sé opinskár með trú sína og það hafi skilað sér í lægri ofbeldistíðni, án þess að gripið hafi verið til sérstakra aðgerða.
„Síðan Mo Salah gekk til liðs við Liverpool hefur hatursglæpum gegn múslimum fækkað í borginni um nítján prósent. Þá hefur dregið úr hatursorðræðu á netinu um fimmtíu prósent.“
Tíu þjóðerni í ellefu manna liði
Þórður Einarsson, knattspyrnuþjálfari, yfirþjálfari hjá Þrótti í dag, var lengst af hjá Leikni í efra Breiðholti.
Þar þjálfaði hann flokka á öllum aldursstigum í karla- og kvennaflokki auk þess að vera yfirþjálfari og framkvæmdastjóri hjá félaginu. Var hann viðstaddur á málþinginu og náði blaðamaður af honum tali.
„Ég var að stilla upp ellefu manna liði af tíu ólíkum þjóðernum.“
Þórður lýsir því hvernig hann raunar sótti leikmenn af knattspyrnuvellinum á skólalóðinni og fékk þá til að byrja að æfa. Mikilvægt sé að koma krökkum snemma í íþróttir, enda nái þau strax ákveðinni færni og þar af leiðandi öryggi innan jafningjahópsins.
„Það þarf bara mikið hugrekki til þess að byrja eftir 10 ára aldur.“
Þannig eru nokkrir leikmenn að spila í efstu deild í dag, sem byrjuðu sinn feril hjá honum.
Fordómar frá öðrum liðum
Þórður hefur talsverða reynslu af því að þjálfa börn af erlendum uppruna. Hann tekur undir með Semu að kynþáttafordómar blundi víða í samfélaginu.
Á æfingum, þar sem svo fjölbreyttur hópur var saman kominn, varð hann síður var við kynþáttafordóma milli leikmanna, en þegar kom að því að spila á móti öðrum liðum, hafi ýmis niðrandi ummæli verið látin falla í hita leiksins af mótherjunum.
Hann bendir á að annarskonar vandi hafi komið upp á æfingum þar sem iðkendur komu úr ólíkum menningarheimum.
„Hómófóbía og Transfóbía voru meira vandamál innan okkar hóps.“