Sérstök umræða um skýrsluna hófst á Alþingi seinnipartinn í dag. Umræðan hófst á skylmingum milli Bjarna og Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, um hlutverk Ríkisendurskoðanda. Þórunn hóf umræðuna á því að fara yfir efni skýrslunnar en sagði síðan að Ríkisendurskoðandi, Guðmundur Björgvin Helgason, hafi sagt á fundi nefndarinnar í gær að hann tæki ekki afstöðu til mögulegra lagabrota við framkvæmd sölunnar. Það væri hlutverk annarra.
- Sjá einnig: List en ekki vísindi að velja kaupendur
Bjarni sagði í andsvörum sínum að hlutverk Ríkisendurskoðanda væri beinlínis að kanna hvort farið hafi verið að lögum við söluna á Íslandsbanka og hvort góðir stjórnsýsluhættir hafi verið viðhafðir. Máli sínu til stuðnings vísaði hann til laga um Ríkisendurskoðun.
Hann spurði svo í kjölfarið hvort að Þórunn væri virkilega að segja að Ríkisendurskoðandi hafi ekki sinnt hlutverki sínu.
Bjarni sagði að með opnunarorðum Þórunnar væri verið að hefja umræðuna á röngum forsendum og að sér sýndist sem þingmenn væru ósammála um hvað stæði í skýrslunni. Það væri ekki til framdráttar.
Hann lauk máli sínu á því að segja grafalvarlegt að saka Ríkisendurskoðanda, trúnaðarmann Alþingis, um að sinna ekki sína lögbundna hlutverki.
Hamrar á því að salan hafi gengið vel
Að loknum andsvörum sínum við ræðu Þórunnar fékk Bjarni tækifæri til þess að hefja sína eigin ræðu. Þar eyddi Bjarni miklum tíma í að lýsa hvernig honum fyndist salan á Íslandsbanka hafa gengið vel.
Hann segir að í greinargerð sinni um söluna, sem kynnt var Alþingi áður en salan kom til framkvæmda, séu meginmarkmið hennar reifuð. Þau segir hann að hafi meðal annars verið að finna Íslandsbanka dreift og fjölbreytt eignarhald með stöndugum stofnfjárfestum sem vildu eiga í bankanum til langframa.
Það hafi ekki verið aðalatriði að fá hæsta verð fyrir hluti ríkisins í Íslandsbanka.
Þá rakti hann að ríkissjóður hefði fengið í sinn hlut samtals 108 milljarða króna í útboðum á Íslandsbanka, fyrst 55 milljarða í almennu útboði og svo 53 milljarða í útboði með tilboðsfyrirkomulagi. Enn héldi ríkissjóður þó eftir 42% eignarhlut í bankanum. Þessi atriði væru algjör kjarni málsins sem væri verið að ræða.
Hann viðurkenndi þó að vissulega hugnist honum ekki að einhverjar villur væri að finna í gögnum Bankasýslu ríkisins um söluna. Það væri mikil ábyrgð að fara með milljarðaeignir ríkissjóðs. Engu að síður benti ekkert til þess að fyrrgreind mistök hefðu haft nokkur úrslitaáhrif á ágæti sölunnar.
Um söluráðgjafa, sem voru utanaðkomandi og málefni hverra eru til rannsóknar fjármálaeftirlits Seðlabanka, sagði Bjarni að brot þessara aðila hefðu afleiðingar fyrir þá, ef yfirleitt kæmi í ljós að þau hefðu verið framin.
Ósammála um hvernig auka megi traust
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði Bjarna Benediktsson að því í sinni ræðu hvernig vinna mætti aftur það traust sem hann segir að hafi horfið við söluna á Íslandsbanka. Sigmar vísaði til könnunar Fréttablaðsins um afstöðu landsmanna til bankasölunnar þar sem óánægja mældist 83%. Það sagði hann að þýddi að 83% landsmanna treystu ekki stjórnvöldum til áframhaldandi einkavæðingar.
- Sjá einnig: Salan sem reitti þjóðina til reiði
Fyrir liggur að stjórnvöld vilja einkavæða Íslandsbanka frekar en nú hefur verið gert. Ríkið heldur enn eftir 42% hlut í bankanum, eins og fyrr segir, og vilji er til að selja hann allan. Einnig hefur það verið á teikniborðinu að selja hluti ríkisins í Landsbankanum. Sigmar spurði Bjarna hvernig í ósköpunum hann kæmist að þeirri niðurstöðu að hægt væri að einkavæða meira þegar traustið væri farið og ríkisstjórnin vildi ekki skipa rannsóknarnefnd um Íslandsbankasöluna, sem Sigmar segir að sé einmitt það sem áður hefur reist við traust landsmanna til bankakerfisins.
Bjarni segir að þingmenn stæðu einmitt í miðju því ferli, sem til þess væri fallið að auka traust: Þinglegri meðferð um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Skýrslan sé til marks um að stjórnvöld vilji auka traust og frumkvæði stjórnvalda að skrifum skýrslunnar sömuleiðis.
Svo sagði Bjarni að til væri það fólk á þingi sem treysti sér ekki fyrir frekari sölu á ríkiseignum og treysti ekki öðrum ráðherrum til þess heldur. Bjarni beindi þá orðum sínum til „þessa fólks“ og sagði að hann treysti því svo sannarlega ekki fyrir rekstri ríkiseigna. Það væri af því það fólk hafi viljað taka lán frá alþjóðastofnunum, þegar það var síðast í ríkisstjórn, og framselja fullveldi þjóðarinnar í leiðinni.
Sigmar svaraði þá að svör Bjarna væru belgingsleg og minnti á þá staðreynd að óánægja landsmanna í garð bankasölunnar hefði mælst 83%.
Bjarni svaraði þá að honum þætti hjákátlegt að þeir sem ali á téðu vantrausti – og átti þar við um stjórnarandstöðuna – kæmu í ræðustól og segðu brýnt að vinna traust aftur til baka. Bjarni sagðist telja að traust yrði frekar endurvakið með málefnalegri umræðu á þinginu og með því að hífa þingið „upp úr þeim forarpytti“ sem margir vildu draga það niður í.
Umræða um verð hlutanna „með ólíkindum“
Þingmenn gerðu margir verðið, sem eignarhlutur ríkisins var seldur á, að umræðuefni sínu. Ríkisendurskoðandi telur enda að selja hefði mátt á hærra verði. Bjarni Benediktsson segir að honum finnist sú umræða með ólíkindum.
Hann ítrekar að meginmarkmið sölunnar hafi ekki fyrst og fremst verið að fá sem hæst verð fyrir hluti ríkisins.
Bjarni sagði í andsvörum sínum við ræðu Ásthildar Lóu Þórsdóttur, þingmanns Flokks fólksins og nefndarmanns í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að „þessir snillingar“ sem telja sig hafa getað fengið markaðsverð á söludag séu ekkert með í höndunum sem sanni það.
Satt best að segja, segir Bjarni, tekur hann ekki mark á því fólki sem telur að illa hafi verið farið með fjárhagslega hagsmuni ríkisins með sölu Íslandsbanka.