Arnar Grétarsson, þjálfari karlaliðs KA í knattspyrnu, var í dag úrskurðaður í fimm leikja bann á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ eftir að hafa fengið sína aðra brottvísun í sumar þegar liðið tapaði 0:1 fyrir KR í Bestu deild karla í síðustu viku.
Með því að fá sína aðra brottvísun í sumar fór Arnar sjálfkrafa í tveggja leikja bann en þremur leikjum var bætt við það vegna hegðunar og framkomu hans eftir leikinn gegn KR.
Hreytti hann ókvæðisorðum að Sveini Arnarssyni, sem var fjórði dómari á leiknum, eftir að Egill Arnar Sigurþórsson, dómari leiksins, hafði gefið honum rauða spjaldið að leiknum loknum.
Ástbjörn Þórðarson úr FH, Telmo Castanheira úr ÍBV, Adam Ægir Pálsson og Magnús Þór Magnússon úr Keflavík, Aron Kristófer Lárusson og Theodór Elmar Bjarnason úr KR, Dagur Austmann Hilmarsson úr Leikni og Guðmundur Andri Tryggvason og Hólmar Örn Eyjólfsson úr Val voru þá úrskurðaðir í eins leiks bann vegna fjögurra áminninga.
Johannes Björn Vall var einnig úrskurðaður í eins leiks bann vegna brottvísunar.