Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Keran ST. Ólason ferðaþjónustubóndi og Birna Mjöll Atladóttir, hótelstýra í Hótel Breiðuvík, voru þar með eitt stærsta fjárbú landsins en hafa rekið hótel í fyrrum upptökuheimili síðan 1999. Þau hættu fjárbúskap árið 2011 og sneru sér þá alfarið að gistiþjónustu og eldi ferðamanna á mat og drykk.
Ríkið hætti rekstri vistheimilisins í Breiðuvík árið 1980. Þá hafði gengið á ýmsu varðandi meðferð barnanna sem þar dvöldu og upplýstist það reyndar ekki opinberlega fyrr en í Kastljósþætti í Sjónvarpinu 6. febrúar 2007 og úr varð mikið fjölmiðlamál. Aðallega voru sendir þangað 10–14 ára drengir og oft frá brotnum heimilum á árunum frá 1953 til 1979 þrátt fyrir að sérfræðingar hefðu gagnrýnt staðarval fyrir slíkt upptökuheimili.
Birna Mjöll Atladóttir. „Þegar við keyptum hér í Breiðavík og byrjuðum á þessum rekstri höfðum við verið saman í tíu ár. Ég hafði þá aldrei komið nálægt búskap.“
Jörðin keypt af ríkinu árið 1981
Jónas Hördal Jónsson og Árnheiður Guðnadóttir keyptu jörðina af ríkinu árið 1981. Var strax ljóst að hefðbundinn búskapur dugði þeim ekki til að halda jörðinni og þótti nærtækast að stunda þar einhvers konar gistiþjónustu. Keran og Birna Mjöll keyptu svo af þeim jörðina átján árum síðar og sjá ekki eftir því þótt uppbyggingin hafi kostað þrotlausa vinnu.
Með uppruna á Patreksfirði og í Örlygshöfn en ákváðu að kaupa Breiðuvík
„Við bjuggum í Örlygshöfn þar sem Keran vann að búrekstri ásamt foreldrum sínum á bænum Geitagili í Örlygshöfn. Við vissum þá að jörðin hér í Breiðavík hafði verið á sölu í nokkurn tíma. Okkur fannst hún áhugaverð, en ásett verð var ansi hátt fyrir okkur,“ sagði Birna Mjöll, sem sjálf er fædd og uppalin á Patreksfirði.
Tíðindamaður Bændablaðsins heimsótti þau hjón á haustdögum 2018, en þá voru þau að undirbúa hausthátíð, sem þau nefndu töðugjöld, með sveitungum sínum sem enn búa á svæðinu og brottfluttum.
„Okkur langaði samt að gera eitthvað. Við höfðum verið með verslun í kaupfélagshúsinu í Örlygshöfn, en þegar Bónus opnaði í Reykjavík fóru allir suður og versluðu svo við urðum að hætta starfseminni. Þá vantaði mig eitthvað að gera auk þess sem okkur vantaði meiri tún til að afla fóðurs fyrir skepnurnar. Við ákváðum að reyna að kaupa Breiðavík, en samdist ekki um verð við eigendurna, Jónas Hördal Jónsson og Árnheiði Guðnadóttur .“
Fyrsta tilboði ekki tekið
Keran segir að það hafi líklega verið haustið 1997 sem þau gerðu fyrst tilboð í Breiðavík. Þá var jörðin búin að vera til sölu í töluverðan tíma. Eigandinn Jónas var ekki sáttur við fyrsta tilboðið, fannst það hálfgerð móðgun og sagðist kjósa að líta svo á að hann hafi aldrei fengið þetta tilboð.
„Að okkar mati var verðið sem sett var á jörðina mjög óraunhæft. Ég var búinn að slá flest túnin í Breiðavík í mörg ár og nytja þau fyrir búið á Geitagili, auk þess að beita jörðina.“
Gengið frá kaupum og allt sett í fullan gang á vordögum 1999
„Ekkert gerðist þó í sölumálum jarðarinnar svo að á endanum kom Jónas til okkar upp úr áramótunum 1999 og var þá sest niður og við töluðum okkur saman um verð,“ segir Keran.
Allt gerðist þetta á mjög skömmum tíma og þau Keran og Birna Mjöll fluttu inn á Breiðavík 1. apríl og voru búin að opna hótelið 15. maí. Byrjuðu þau á að nýta aðstöðuna sem fyrir var en Jónas og Árnheiður höfðu rekið þar farfuglaheimili og voru komin með vísi að gistihúsi.
Búið að kosta blóð, svita og tár en sjá ekki eftir neinu
Keran og Birna Mjöll hafa sannarlega unnið þrekvirki við uppbyggingu staðarins með fjölgun gistirýma í smekklegum gámahúsum og viðbyggingu við gamla húsið með góðu eldhúsi og veitingasal sem tekur ríflega hundrað manns í sæti. Þá hefur Keran verið að vinna við að breyta útihúsum í gistiaðstöðu auk þess að sinna skólaakstri, vitavörslu við Bjargtangavita og fleira.
„Ef ég hefði séð hvað beið mín, þá hefði ég aldrei byrjað á þessu,“ segir Keran.
„Við sjáum samt ekki eftir neinu í dag, en þetta er búið að kosta blóð, svita og tár. Við vorum með stórt fjárbú og jukum við okkur þegar við fluttum hingað til að reyna að ná endum saman. Við áttum í raun enga peninga þegar við byrjuðum á þessu og keyrðum þetta fyrst og fremst á bjartsýninni, mikilli orku og óbilandi áhuga. Við fjölguðum sauðfé og vorum komin með 1.000 fjár á vetrarfóðrum og héldum því í tvo vetur. Vorum við alltaf með féð á tveimur jörðum, bæði hér í Breiðavík og á Geitagili. Það var sannarlega allt kjaftfullt af fé á báðum stöðum.
Þetta var afskaplega líflegt og ekki síst sauðburðurinn. Samt fengum við aldrei fólk að til að hjálpa okkur við sauðburðinn. Við stóðum bara í þessu sjálf hjónin og vorum með krakkana okkar með okkur. Svo keyrði maður skólabílinn meðfram búrekstrinum, var í ullarmati, grenjavinnslu og búfjáreftirliti, það var ekki mikið sofið.“
Eiginkonunni hent út í djúpu laugina í sveitastörfunum
Birna Mjöll bendir á að þegar sauðburðurinn stóð sem hæst á vorin hafi þau yfirleitt verið búin að opna ferðaþjónustuna líka sem kallaði á enn meira vinnuframlag. Hún tók því að sér að vera kokkur á hótelinu.
„Þegar við keyptum hér í Breiðavík og byrjuðum á þessum rekstri höfðum við verið saman í tíu ár. Ég hafði þá aldrei komið nálægt búskap þótt hann hafi starfað á búinu á Geitagili með foreldrum sínum. Ég var því að mestu með börnin, auk þess sem ég rak verslun niðri á holtinu í Örlygshöfn. Ég var nú svo græn að ég vissi varla úr hvaða gati lömbin kæmu, hvað þá annað. Keran færði mér því hundrað rollur fyrsta vorið hér í Breiðavík til að æfa mig á hvaðan lömbin kæmu.“
Gísli á Uppsölum hefði örugglega roðnað yfir aðferðunum
„Þessi fyrsti vetur okkar hér í Breiðavík var mjög harður. Gísli á Uppsölum hefði örugglega roðnað yfir aðferðunum sem við þurftum að nota fyrsta veturinn. Hér snjóaði allt í kaf og við vorum ekki komin með neinar dráttarvélar eða almennileg tæki hingað yfir heiðina. Við þurftum því að draga rúllurnar að fjósinu með vélsleða.
Einu sinni var orðið rúllulaust í húsunum og brjálað veður úti. Keran var veðurtepptur á Geitagili og það kom því í minn hlut að gefa fénu sem var í gamla fjósinu, segir Birna. Rúllan var fyrir utan fjósgluggana og það var heylaust inni. Ég tók þá rúðu úr fjósglugganum og mokaði heyinu inn um gluggann. Áður hafði ég grafið snjóhús í skaflinn svo krakkarnir gætu verið þar í skjóli meðan ég reyndi að koma heyinu í hús.“
Birna Mjöll sinnti burðarhjálp í gegnum talstöð og síma
„Stundum kom það fyrir að ég varð að segja við gestina að matnum seinkaði aðeins af því að ég þyrfti að fara í fæðingarhjálp. Þá komu gestirnir stundum með mér til að upplifa það sem fram fór.
Ég man sérstaklega eftir einu atviki sem sýnir vel hversu fáránlegt þetta var. Þá var Keran mikið að keyra á daginn, kom svo heim og markaði lömbin og setti út féð á nóttunni. Þá var ég yfirleitt ein heima með krakkana.
Svo þurfti hann að fara með skólakrakkana í ferðalag suður til Reykjavíkur. Við vorum þá með fé niðri í refahúsinu og strákarnir koma og kalla á mig að þangað vanti hjálp. Þetta var á þeim tíma þegar gsm-farsímarnir voru ekki enn orðnir algengir og auðvitað ekkert gsm-samband hér í Breiðavík. Við vorum hins vegar með labbrabb-talstöðvar [WalkieTalkie] sem við notuðum á milli húsa.
Nú ég fer þarna niður eftir og er ein að bera og það sést í fjórar framlappir en enga snoppu. Þá voru góð ráð dýr og ég hafði í raun ekkert vit á búskap eða burðarhjálp. Ég þurfti því að fá leiðbeiningar um hvernig ég ætti að bera mig að.
Þetta fór þannig fram að ég var með talstöðina og talaði við strákinn minn sem var uppi í húsi og var í sambandi við pabba sinn í gegnum síma, en hann var þá staddur í Kringlunni í Reykjavík. Hann lýsti svo fyrir stráknum hvað ætti að gera næst og strákurinn kallaði það svo áfram til mín í gegnum talstöðina,“ sagði Birna.
Gestir Kringlunnar hópuðust að til að hlusta á fæðingarlýsingar bóndans úr Breiðavík
„Mér er þetta enn í fersku minni,“ sagði Keran.
„Ég var með krakkana í skólaferðalagi og var staddur með þá í Kringlunni í Reykjavík. Þar hallaði ég mér yfir grindverk og lýsti svo fyrir syninum að fyrst ætti að gera svona og svo svona. Það væri ráð að prófa að klípa í lappirnar og sjá hvaða lappir hreyfðust saman. Þá ætti að toga í þær lappir og ýta hinum inn á meðan. Síðan væri að reyna að finna hausinn og snoppuna. Þetta gekk og Birna Mjöll náði báðum lömbunum út lifandi. Þegar ég leit svo upp að samtalinu loknu var kominn hálfhringur af fólki í kringum mig sem fylgdist með þessum undarlegu fæðingarlýsingum af mikilli athygli.“
Hefði aldrei orðið að veruleika ef þau hefðu vitað hvað beið þeirra
Keran segir að ef þau hefðu vitað hvað beið þeirra eftir að þau tóku við Breiðavík og hefðu haft tök á að skyggnast inn í framtíðina, þá hefðu þau aldrei farið út í þennan rekstur.
„Allt hefur þetta þó gengið upp, en með ótrúlegri vinnu og útsjónarsemi. Hótelreksturinn fór svo ekkert að ganga af viti fyrr en við settum upp herbergi með baði. Við tókum þau í notkun 2004, en þá keyptum við gistieiningar sem voru tólf tilbúin herbergi með baði. Um leið og það var komið í gagnið fóru að koma hingað annars konar gestir sem áttu meiri peninga en gestirnir sem sóst höfðu eftir ódýrri farfuglaþjónustu. Það varð því allt annað upplit á fyrirtækinu sem fór um leið að gefa eitthvað af sér.“
Breiðuvíkurkirkja. Á staðnum var bænhús framan af öldum en sóknarkirkjan var sett 1824. Kirkjan sem nú stendur í Breiðuvík var vígð árið 1964. Munir úr gömlu kirkjunni eru á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti.
Gæfuspor að hafa hætt sauðfjárbúskap 2011
„Árið 2011 ákváðum við að hætta búskapnum og losuðum okkur við rollurnar. Það var mikið gæfuspor. Ég var afskaplega heppinn, eins og oft áður í mínu lífi, að hætta þeim búskap á hárréttum tíma. Þá var lítið um notaðar vélar í landinu því þær höfðu allar verið seldar úr landi í hruninu. Ég átti þá mjög góðar vélar og það var slegist um þær og seldust þær allar á yfirverði. Ærkjötið var þá í sögulegu hámarki, þannig að það spilaði allt með okkur. Við tókum tvö ár í að hætta búskapnum til að ná sem mestu út úr þessu. Ég kláraði því að nýta allt heyið og við komum eins vel út úr þessum viðskiptum og hugsast gat.
Síðasta vorið báru hjá okkur 470 rollur og ég man að mér fannst bara ekki neitt að eiga við þann fjölda miðað við þúsund árið áður. Það hefur alltaf verið mikil frjósemi hér í Breiðavík og mun meira um þrílembur en einlembur, það þakka ég afar góðri fjörubeit hér.“
Góð fjörubeit létti mjög á rekstrinum
„Við vorum með mjög góða fjörubeit, þannig að þegar ég var með eitt þúsund fjár á fóðrum þurfti ég ekki nema 700 heyrúllur og það dugði vel. Vegna fjörubeitarinnar þurfti ég ekki að taka inn í hús 250 til 300 fjár fyrr en um mánaðamótin febrúar-mars. Þurfti ég ekkert að gefa þeim fram að því, en féð var bara úti og í fjörubeit. Þetta var samt mitt vænsta fé. Þegar ég tók féð inn rúði ég það og um leið og það var borið fór það að fara út aftur.
Annars var ég með það á taði í refahúsinu og mokaði þar í það heyi þar sem ég var með sjálfgjafakerfi sem ég hannaði sjálfur. Ærnar sem voru að koma inn í endaðan febrúar, byrjun mars, úr þaranum gat innbyrt mikið magn af heyi og sparaði ég það ekki við féð. Í refahúsinu var ég með um 550 til 600 fjár og þurfti ekki að gefa þar rúllur nema svona einu sinni í viku, enda hafði ég útbúið þar sjálfgjafakerfi og sjálfvirkt vatnskerfi. Það sá því að mestu um sig sjálft.“
– Þú nefnir mikla fjörubeit. Hafði hún engin vandamál í för með sér fyrir kindurnar?
„Nei, við lentum ekki í neinum vandamálum, ekki nokkrum. Þetta var allt mjög heilbrigt fé sem át bæði rekþara og líka söl, allt eftir því hvernig á stóð. Af þessu uppskar ég gríðarlega mikla frjósemi og vænt fé. Burðarhjálp við það var nánast engin og þegar það kom inn í hús hafði ég það á taði og stutt að sækja sand til að bera undir líka. Það var því þurrt og gott í húsinu.“
Fór aldrei í refarækt þrátt fyrir hvatningu
-Þú segist þarna hafa nýtt þér refahús sem var á jörðinni þegar þið keyptuð hana, stundaðir þú eitthvað refarækt sjálfur?
„Nei, ég fór aldrei út í það. Það var samt mjög lagt að mér að fara í refarækt á sínum tíma, en ég hafði aldrei trú á þessu og leist aldrei á að slíkt gæti gengið. Fyrri eigendur voru hins vegar með refarækt og skyldu hér eftir nærri þúsund fermetra hús þegar þau hættu. Það er mjög vel byggt stálgrindarhús sem nýttist okkur ágætlega fyrir kindurnar.“
„Ef ég hefði séð hvað beið mín, þá hefði ég aldrei byrjað á þessu,“ segir Keran ST. Ólason, sem sér þó ekki eftir neinu.
Síðasta sumar var slakt í ferðamennskunni
– Þið eruð búin að vera alfarið í ferðaþjónustu síðan 2011, hafið þið orðið vör við aukinn straum ferðamanna á þetta vestasta horn landsins?
„Já, aukinn ferðamannastraumur til landsins hefur auðvitað skilað sér hingað líka. Ég myndi þó segja að eftir okkar tuttugasta sumar í þessum rekstri sem við vorum að ljúka við nú 2018, þá var það mjög erfitt. Ef við værum í Reykjavík, þá væri þessu líkt við hrun. Af því að við erum hér á hjara veraldar þá tölum við bara um samdrátt.
Ég gæti trúað að ferðamönnum sem sóttu til okkar síðastliðið sumar hafi fækkað um 50% frá því sem mest var hvað gistinætur varðar. Auðvitað eru margir samverkandi þættir sem valda því. Það er í fyrsta lagi veðrið, síðan heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu, auk þess sem Ísland er dýrt ferðamannaland.
Samt þegar maður skoðar t.d. talningu á bílum inn á svæðið á teljurum Vegagerðarinnar, þá hafa ekkert komið færri bílar hingað en venjulega. Talið hefur verið að það fari út á Látrabjarg hér rétt vestan við okkur, um 100 þúsund manns á hverju sumri.“
Litlu „svefnbílarnir“ eru tifandi tímasprengjur
„Þá spilar inn í að það er aukið gistiframboð á svæðinu og ýmislegt annað, eins og litlir bílaleigubílar sem fólk gistir í. Þeir bílar hafa reyndar alls staðar verið til töluverðra vandræða. Það er greinilega ekki nógu vel að þeim rekstri staðið. Fólk fer illa upplýst á þessum bílum um landið og ég óttast að það verði ekkert gert varðandi þann rekstur fyrr en það verða alvarleg slys. Þessir bílar eru engan veginn almennilega útbúnir eins og húsbílar. Fólk er t.d. að skríða inn í þessa bíla og reyna að hita þá upp í köldu veðri með gaslömpum. Ég tel að þetta séu ekkert annað en tifandi tímasprengjur.“
Bjartsýnn á hag ferðaþjónustunnar
– Hvað með framhaldið, ertu þokkalega bjartsýnn?
„Já, já, ferðamenn munu halda áfram að koma til Íslands og þeir eiga eftir að sækja í auknum mæli út í hinar dreifðu byggðir, á því er enginn vafi. Enda hef ég oft sagt að Vestfirðir séu eitt best varðveitta leyndarmál Íslands.
Maður veit svo sem ekkert um hvernig þetta kemur nákvæmlega til með að þróast, en við erum samt ekkert hætt að fá ferðamenn, þvert á móti held ég að þeim muni fara fjölgandi. Auðvitað geta þó alltaf komið sveiflur og lægðir í ferðamennskuna.“
Geitasel í Örlygshöfn þar sem Keran og Birna Mjöll hyggjast verja ævikvöldinu.
Hyggjast flytja að Geitagili í framtíðinni
– Sérðu fyrir þér að þið haldið lengi áfram rekstrinum hér í Breiðavík?
„Við verðum svo sem ekkert eilíf hér. Það þarf mikinn dugnað og eljusemi að halda úti þessum rekstri. Það er því ekki gert nema fólk hafi til þess fulla heilsu.“
– Nú hafið þið staðið í mikilli uppbyggingu hér í Breiðavík, en um leið hafið þið líka verið að byggja upp á þinni gömlu bújörð og foreldra þinna, Geitagili í Örlygshöfn. Sérðu það frekar fyrir þér sem ykkar heimili í framtíðinni?
„Já, ég geri það. Við höfum verið afskaplega heppin með smið sem hefur hjálpað okkur við alla þessa uppbyggingu. Við höfum verið með þennan sama mann í smíðavinnu hjá okkur í ein fimm eða sex sumur og hann er afskaplega fær iðnaðarmaður og heitir Sigurjón Hákonarson. Hann gengur í hvað sem er og er duglegur að benda manni á hvað þurfi að lagfæra og hvað megi gera betur.
Á Geitagili stóðu málin þannig að það var ekki nema um tvennt að ræða. Annaðhvort að jafna húsin við jörðu og moka yfir eða laga þau til. Ég ákvað að taka seinni kostinn, laga þau til og eiga þetta þá til elliáranna. Þarna er búið að endurbyggja allt og við erum nú að klára að endurnýja síðasta húsið. Meira að segja tók ég stífluna í gegn í haust, steypti hana upp og hækkaði um metra samfara því að stækka og dýpka safnlónið fyrir virkjunina, en á Geitagili er heimarafstöð sem virkjuð var 1966 og hefur aldrei verið neitt annað rafmagn á jörðinni.
Ég endurnýjaði allan vélbúnað í virkjuninni 2001 og er nú komið að því að endurnýja búnaðinn á nýjan leik enda er ég búinn að auka vatnsmagnið mikið síðan.“
Málningarslettan varð að heilu íbúðarhúsi
Eins og fyrr segir þá voru þau Keran og Birna Mjöll með fé í gömlu fjósi í Breiðavík auk refahússins sem þar er. Fjósið var með sambyggðri hlöðu sem til stóð að lengja um helming og byggja fjárhús samhliða fjósinu. Það var þó aldrei gert. Fjárhúsi var hróflað upp um 1955 af vanefnum og átti að standa í 1–2 ár, þau stóðu þar til 2011 en voru þá alveg að hrynja og voru þá rifin. Þau tóku 200 fjár og ég var alltaf með þau full af fé.
„Fjósið var eins og önnur fjós með lítilli lofthæð og lítið hægt við það að gera eftir að við hættum sauðfjárbúskapnum. Konan lagði þá til að við slettum á þetta málningu svo það liti betur út. Ég fór þá og reif af því þakið og hækkaði veggina. Síðan setti ég nýtt þak, nýja og stærri glugga, nýjar útihurðir og einangraði húsið auk þess að steypa nýja einangraða gólfplötu með lögnum. Í dag er þetta nánast orðið fullbúin íbúð sem vantar herslumuninn á að klára. Það er búið að setja upp alla milliveggi og mála, en eftir er að klára klósettið og eldhúsið. Svo málningarslettan á gamla fjósið tók því algjörum stakkaskiptum og varð að nýju íbúðarhúsi.
Upphaflega hugmyndin þegar ég byrjaði á þessu var að gera þetta að íbúð fyrir okkur hjónin. Þannig gætum við komist út úr vinnunni á hótelinu þar sem við höfum búið í smá kytru og verið meira út af fyrir okkur. Þar sem ferðaþjónustan hefur heldur dregist saman eins og á síðastliðnu sumri, þá verðum við meira að sinna öllu sjálf og erum því alltaf á vaktinni. Meðan svoleiðis er þá getum við ekkert leyft okkur að fara úr vinnunni eins og fínir forstjórar og stimpla okkur út á miðjum dögum og fara heim í nýja húsið. Því höfum við frestað því að klára þetta hús meðan við erum hér allt í öllu.“
Forréttindi að fá að sinna áhugastarfinu
– Það er þá ekki mikið um frí hjá ykkur?
„Nei, en ég hef litið svo á að við búum í fríi alla daga. Þótt konan sé ekki hress með það þá höfum við ekki nokkurn tímann farið í það sem aðrir kalla frí síðan 1999. Ég hef ekki einu sinni farið í vetrarfrí. Þá hefur tekið við bullandi vetrarvinna, skólaakstur,vélavinna og annað. Svo hef ég líka verið meira og minna í viðhaldi allan veturinn líka.
Þó ég hafi aldrei farið í það sem flestir kalla frí, þá segi ég líka að það eru mikil forréttindi að fá að vinna við það sem maður hefur áhuga á og gaman af. Ég væri ekki í þessu ef ég hefði ekki gaman af og mikinn áhuga á þessu. Ég elska það sem ég er að gera og það eru forréttindin sem allur almenningur getur ekki gengið að sem sjálfsögðum hlut,“ segir Keran St. Ólason, ferðaþjónustubóndi í Breiðavík.
Fyrsta alvöru fríið síðan 1999
Því er við að bæta að þau öndvegishjón létu loks verða af því að taka sér almennilegt frí frá rekstrinum eins og vel flestir Íslendingar nú fyrir áramótin. Þannig lögðu þau veg undir dekk, óku til Keflavíkur og hoppuðu þar upp í flugvél á vit ævintýranna á Gran Canaria, rétt áður en jólin gengu í garð.
Breiðavík er vík á Vestfjörðum og er ein af svonefndum Útvíkum sem liggur milli Kollsvíkur og Látravíkur. Nokkru sunnar er Látrabjarg og þorpið Patreksfjörður er í um 50 km fjarlægð í austurátt. Í Breiðuvík er nú búskapur og ferðaþjónusta, á sumrin er rekið þar gistiheimili. Allmikill útvegur var stundaður fyrrum frá Breiðuvík.