Spurning dagsins og undanfarinna daga er hvenær hrekst Liz Truss úr embætti? Fréttaskýrendur keppast við að lýsa því yfir að allt traust á henni sé horfið og án þess sé henni ekki lengur sætt. Hún hljóti að gefast upp innan nokkurra daga eða vikna. Líkast til endist hún ekki lengur en til jóla.
Sjálf var Liz Truss hvergi bangin í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC í gærkvöld og kvaðst ætla að vera í broddi fylkingar í Íhaldsflokknum í næstu þingkosningum. Óvíst er reyndar hvenær þær fara fram, en frestur til að efna til þeirra rennur út í janúar 2025.
Óhagstæðar skoðanakannanir
Tiltrú kjósenda á forsætisráðherranum minnkar stöðugt ef marka má skoðanakönnun YouGov frá því um síðustu helgi. Einungis tíu af hundraði lýstu yfir jákvæðri afstöðu til hennar. Tuttugu prósent þeirra sem kusu Íhaldsflokkinn í síðustu kosningum voru jákvæð.
Önnur könnun YouGov, sem birt var í morgun, er Liz Truss einnig óhagstæð. Leitað var álits 530 þingmanna íhaldsflokksins. Niðurstaðan var sú að 55 prósent þeirra vilja að hún taki pokann sinn. Fjórðungur hópsins kvaðst styðja hana.
Einbeitum okkur að vandamálunum
Sjálf sagðist Liz Truss í BBC-viðtalinu í gærkvöld ekki mega vera að því að fylgjast með vangaveltum félaga sinna í flokknum. „Aðalatriðið er þetta,“ sagði hún, „ég var kjörin í þetta embætti til að gera þjóðinni gagn. Við eigum í mjög miklum erfiðleikum og við höfum einfaldlega ekki efni á að eyða tíma okkar í að ræða um Íhaldsflokkinn. Tölum frekar um það sem við þurfum að gera. Það eru skilaboð mín til flokksfélaganna.“
Hátekjuskatturinn var örlagavaldur
Vandamál Liz Truss og stjórnar hennar hófust skömmu eftir að hún tók við völdum. Ráðstafanir sem Kwasi Kwarteng fjármálaráðherra kynnti þingi og þjóð til að taka á alvarlegum fjárhagsvanda ríkissjóðs mættu hvarvetna harðri andstöðu. Það sem verst fór í Breta voru áform um að afnema 45 prósenta hátekjuskatt og lækka skatta á fyrirtæki án þess að leggja fram neina áætlun um hvar ætti að sækja það fé sem ríkissjóður tapaði með skattabreytingunum.
Á föstudag ákvað Liz Truss að lægja óánægjuöldurnar með því að reka Kwasi Kwarteng, vin sinn og skoðanabróður í skattamálum. Í hans stað tók Jeremy Hunt við embætti fjármálaráðherra, tiltölulega hófsamur miðjumaður í Íhaldsflokknum sem tilkynnti neðri málstofu breska þingsins í gær að vegna aðstæðna hefðu hann og forsætisráðherra ákveðið að nánast allar efnahagsráðstafanir forvera hans yrðu afturkallaðar.
Jeremy Hunt bætti því við að til þessa ráðs hefðu stjórnvöld orðið að grípa til að efla traust fólks á fjármálastefnu stjórnvalda.
Fóru fram úr sér
Liz Truss viðurkenndi í gærkvöld að mistök hefðu verið gerð. Hún kvaðst axla ábyrgð og baðst afsökunar. Hún sagði einnig að hún viðurkenndi að stjórnvöld hefðu farið fram úr sér. Nú væri nýr fjármálaráðherra kominn til starfa. Hann hefði sín áform til að koma á efnahagslegum stöðugleika.
Geta lýst yfir vantrausti
Og þá að spurningu dagsins og næstu daga á undan. Hvenær lætur Liz Truss af embætti? Og hin spurningin er: Hver tekur við af henni?
Það er á valdi ríkisstjórnarinnar og/eða þingmanna að krefjast afsagnar forsætisráðherrans á þeirri forsendu að hann eða hún njóti ekki lengur trausts. Fimmtán prósent þingmanna flokksins, 54 talsins, verða að tilkynna bréflega til formanns 1922 nefndarinnar, félags almennra þingmanna, að þeir treysti leiðtoganum ekki lengur.
Samkvæmt reglum nefndarinnar á nýr leiðtogi að njóta friðhelgi frá vantrausti fyrsta árið í embætti. Liz Truss verður því áfram við stjórnvöldin fram á næsta haust nema reglunni verði breytt. Gerist það, og ef að minnsta kosti 54 þingmenn óska eftir því að leiðtoginn verði settur af, verður efnt með hraði til atkvæðagreiðslu um vantraust. Meirihluti þingmanna verður að taka þátt í henni.
Líklegir arftakar
Fari svo að vantraust verði samþykkt hver er þá líklegastur til að taka við? Samkvæmt skoðanaönnun YouGov, sem nefnd var í upphafi, vilja 32 prósent sitjandi þingmanna að Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra, taki við forystunni. Hann lét af embætti í síðasta mánuði eftir uppreisn meðal ráðherra og almennra þingmanna. Síðan hefur hann látið lítið fyrir sér fara.
Næst flest atkvæði þingmanna Íhaldsflokksins fékk Rishi Sunak, fyrrerandi fjármálaráðherra. Hann og Liz Truss fengu flest atkvæði í leiðtogakjörinu í sumar og hún tryggði sér embættið í kjöri almennra flokksmanna. Sunak varaði margoft við efnahagsáætlun Truss og atburðir síðustu daga sýna að hann hafði rétt fyrir sér. Margir almennir flokksmenn hafa horn í síðu Sunaks fyrir að hafa átt drjúgan þátt í uppreisninni gegn Boris Johnson, sem leiddi til þess að hann var neyddur til að segja af sér.
Penny Mordaunt, fyrrverandi varnarmála- og viðskiptaráðherra, þykir einnig koma til greina. Hana vantaði einungis átta atkvæði upp á að keppa við Rishi Sunak um leiðtogaembættið í stað Liz Truss í sumar. Hún á sæti í ríkisstjórn Truss sem leiðtogi neðri málstofu þingsins.
Loks er nefndur til sögunnar Jeremy Hunt fjármálaráðherra. Hann kvaðst í gær ekki hafa neinn áhuga á að verða forsætisráðherra Bretlands. Frú Hunt hefði það ekki heldur og þá ekki börn þeirra þrjú.