Samráðshópur um varnir Úkraínu, varnarmálaráðherrar og hátt settir herforingjar yfir fimmtíu þjóða, komu saman í Ramstein-herstöðinni í Þýskalandi í dag í boði Lloyds Austins, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Þar tilkynnti hann að Bandaríkjastjórn ætlaði að senda Úkraínumönnum vopn, þar á meðal flugskeyti, brynvarin farartæki, skotfæri og annan búnað, að verðmæti 675 milljóna dollara.
„Við erum farin að sjá árangurinn af sameiginlegu átaki okkar á vígvellinum,“ sagði Lloyd Austin. „Á hverjum degi verðum við vitni að staðfestu samherja og samstarfsþjóða um allan heim sem aðstoða Úkraínumenn við að standast ólöglegt, imperíalískt og óforsvaranlegt landvinningastríð Rússa og við verðum að bæta í eftir því sem stríðinu fleygir fram.“
Styrkja varnir grannríkjanna
Þá tilkynnti Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þegar hann kom í óvænta heimsókn til Kænugarðs í dag, að ákveðið hefði verið að veita Úkraínumönnum eins milljarðs dollara styrk og lán til langs tíma til kaupa á búnaði frá Bandaríkjunum. Einum milljarði til viðbótar verður varið til að styrkja varnir í átján nágrannaríkjum Úkraínu, innan Atlantshafsbandalagsins sem utan, gegn rússneska hernum. Þeirra á meðal eru Eystrasaltsríkin, Moldóva og Georgía. Þessar upphæðir koma til viðbótar við að minnsta kosti þrettán milljarða dollara sem Bandaríkin hafa þegar veitt Úkraínustjórn í hernaðaraðstoð.
Gagnsókn sögð skila árangri
Þessi tíðindi koma á sama tíma og stjórnvöld í Kænugarði tilkynntu um árangur í gagnsókn úkraínska hersins gegn rússneska hernámsliðinu í norðri, suðri og austri. Volodymyr Zelensky forseti skýrði frá þessu í ávarpi sínu til þjóðarinnar í gærkvöld.
Oleksiy Gromov, yfirmaður í úkraínska herráðinu, tilkynnti í dag að herliðinu hefði tekist að komast fimmtíu kílómetra inn fyrir víglínu Rússa í grennd við Kharkiv, næststærstu borg landsins, og náð að frelsa yfir tuttugu þorp og bæi sem Rússar höfðu á valdi sínu.
Eyðilögðu bráðabirgðaherstöðvar
Igor Konashenkov, talsmaður varnarmálaráðuneytis Rússlands, sagði á fundi með fréttamönnum í Moskvu að tvær bráðabirgðaherstöðvar Úkraínumanna í Donetsk-héraði hefðu verið eyðilagðar í flugskeytaárás.
„Síðastliðinn sólarhring hefur óvinurinn misst tvo skriðdreka, sex ökutæki fótgönguliðsins og fimm önnur brynvarin farartæki, og hundrað og níutíu hermenn í grennd við Mykolaiv og Kryvyi Rih,“ sagði talsmaðurinn.
Þúsundir almennra borgara fallnar
Mannfall í Úkraínu heldur áfram eftir því sem bardagar halda áfram milli stríðandi fylkinga. Rosemary DiCarlo, aðstoðaraðalframkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum, greindi öryggisráðinu frá því í gær að frá 24. ágúst hefðu borist staðfestar upplýsingar um að 104 almennir borgarar hefðu látið lífið af völdum hernaðaraðgerðanna, þar af tíu börn. Yfir 250 hefðu særst. Þar með sagði Rosemary DiCarlo að samkvæmt gögnum mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna væru 5.718 almennir borgarar fallnir, þar af 372 börn. Á níunda þúsund hafa særst. DiCarlo ítrekaði að þetta væru einungis staðfestar upplýsingar. Vafalaust hefðu mun fleiri særst og fallið.
„Þessar tölur og staðreyndir, svo sorglegar sem þær eru, geta ekki gefið til kynna harmleikinn sem að baki býr,“ sagði Rosemary DiCarlo. „En í ljósi vangetu alþjóðasamfélagsins til að stöðva þetta tilgangslausa stríð verðum við að halda áfram að skrá skelfilegar afleiðingar þess eins nákvæmlega og okkur er unnt. Það er skylda okkar og raunar það minnsta sem við getum gert til að hjálpa til við að afstýra því að átökin færist í aukana og koma í veg fyrir að önnur sambærileg blossi upp.“
Milljónir á flótta
Ilze Brands Kehris, aðstoðarframkvæmdastjóri mannréttindaskrifstofunnar í New York, skýrði öryggisráðinu frá því að um það bil sjö milljónir Úkraínumanna væru á flótta innan lands vegna stríðsins og milljónir til viðbótar hefðu flúið til annarra landa. Þetta væri meðal annars afleiðing þess að borgaralegir innviðir samfélagsins hefðu víða verið lagðir í rúst og hús eyðilögð. Mannréttindabrot hernámsliðsins á svæðum sem það hefur lagt undir sig hafi aukið enn frekar á flóttamannastrauminn.
Falsupplýsingaherferð
Vasily Nebenzya, fastafulltrúi Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, vísaði öllum ásökunum á bug.
„Þessi fundur, sem boðað var til að ósk Bandaríkjanna og Albaníu, á góða möguleika á að marka tímamót í þeirri falsupplýsingaherferð sem Úkraínumenn og stuðningsþjóðir þeirra hafa leyst úr læðingi gegn Rússlandi. Taktík vesturveldanna er gegnsæ, að heyja stríð þar til síðasti Úkraínumaðurinn er fallinn. Þeir gera allt sem unnt er til að ófrægja Rússland og þær sértæku hernaðaraðgerðir sem við eigum í um þessar mundir. Við könnumst vel við þessar óþverralegu aðferðir vestrænna áróðursmeistara.“