Búningsklefar í Sundhöll Reykjavíkur voru á dagskrá Menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs fyrr í vikunni en tilefnið var erindi sem Dr. Vilborg Auður Ísleifsdóttir sendi til landlæknis þar sem hún lýsti „ófremdarástandi“ í Sundhöllinni vegna nýbyggingar á búnings- og sturtuklefum kvenna. Segir Vilborg að núverandi ástand sé heilsuspillandi og að frá lýðheilsusjónarmiði sé fyrirkomulagið ekki verjandi.
Vísar hún til þess að konur hafi fengið þær upplýsingar að þegar Sundhöllin var stækkuð að þær myndu aftur frá aðgang að sinni gömlu aðstöðu að framkvæmdum loknum. Í umsögn Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar standi aftur á móti að gamli klefinn sé helst hugsaður sem viðbót þegar hann hefur verið gerður upp og sé ekki eyrnamerktur konum eða körlum.
Þá greinir hún frá því í erindi sínu til landlæknis að hún hafi skrifað yfirmanni Sundhallarinnar og borgarstjórn bréf sem ekki hefur verið svarað. Hún hafi síðar rætt við Drífu Magnúsdóttur, sundhallarstjóra, sem kvaðst ekki vera með nein völd í málinu og sagði einungis að ekki hafi verið tekin ákvörðun um málið. „Loforðið til kvenþjóðarinnar var sum sé innistæðulaust orðagjálfur,“ skrifar Vilborg.
„Erfitt er fyrir eldri konur og skólastúlkur að iðka þessa líkamsrækt nema að sumarlagi. Þær þurfa nefnilega að ganga frá nýju búnings- og sturtuklefunum 20 -25 metra til þess að komast inn í hráslagalegt stigahús, sem liggur að innilauginni … Mörgum konum er mjög misboðið með þessu fyrirkomulagi, þykir sér sýnd lítilsvirðing og eru því hættar að mæta á sinn gamla sundstað.“
Drífa Magnúsdóttir, forstöðumaður Sundhallarinnar, sagði í Morgunblaðinu í dag að það hafi ekki verið mikið kvartað yfir staðsetningu kvennaklefans heldur hafi aðallega tveir einstaklingar látið í ljós óánægju sína. Má þar áætla að um sé að ræða Vilborgu og Eddu Ólafsdóttur, sem áttu fund með Drífu um málið.
Fagnar því að landlæknir sé kominn í málið
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hefur ítrekað beitt sér fyrir í málinu í borgarstjórn en það hófst eftir að Edda Ólafsdóttir, kona á tíræðisaldri sem hafði sótt Sundhöllina í áratugi, birti grein um stöðuna. „Þetta gekk svolítið lengi, ég vildi klára alla möguleikana sem ég hafði því mér fannst þetta líka svo leiðinlegt mál,“ segir Kolbrún í samtali við Fréttablaðið í dag.
„Ég bæði fór með þetta inn í skipulagsráð til þess að spyrja um hönnunina og hvort að þetta hafi ekki verið markmið að þjónusta alla hópa, svo fór ég með þetta inn í mannréttindaráð til þess að athuga hvort þetta samræmdist jafnréttisstefnu,“ segir Kolbrún en þá hafi hún fengið þau svör að svo væri. Mér finnst þetta bara verulega illa komið fram við þessar konur og ungar stelpur, og stelpur bara, því karlarnir fengu náttúrulega sína klefa aftur þegar búið var að laga þá.“
Eftir að málið náði hápunkti í fyrra segir Kolbrún að það hafi farið af stað mikil umræða innan ákveðinna hópa auk þess sem þjónustukönnun Maskínu sýndi að það væri óánægja með klefana. Leiðir hennar til að koma málinu að í borgarstjórn hafi þó tæmst þá en hún fagnar nú erindi Vilborgar og vonar að málið fái einhverja hlustun nú þegar landlæknir er kominn í málið.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Nýtt fyrirkomulag með marga kosti
Í samtali við Fréttablaðið segir Hjálmar Sveinsson, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, að það standi til að búið verði að gera upp gömlu klefana upp fyrir áramót og það takist jafnvel á næstu vikum. Ekki hafi enn verið tekin nein ákvörðun um hvort klefarnir verði nýttir fyrir karla eða konur.
„Það getur verið að það verði notað bara þegar verður, eins og gerist stundum, alveg gríðarleg aðsókn og þá myndi þurfa að nota gömlu klefana, en það á bara eftir að taka ákvörðun um það hvernig þeir verði nýttir,“ segir Hjálmar aðspurður um hvort það sé möguleiki að konum verði gefinn kostur á að velja um gömlu eða nýju klefana.
Hjálmar segir þó núverandi fyrirkomulag eiga marga kosti. „Það er rétt að hafa það í huga í þessu máli öllu saman, að aðstaða fyrir konur með hreyfihömlun var engin í gömlu klefunum, það þurfti að fara upp og niður brattan stiga. Þetta nýja fyrirkomulag hefur algjörlega breytt því, þannig eiga fatlaðar konur mjög auðvelt með að komast í sund,“ segir Hjálmar.
Vill að konur fái að velja
Um er að ræða sömu rök og Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð gaf þegar Flokkur fólksins beitti sér fyrir málinu í fyrra. Vilborg tekur mark á því í bréfi sínu til landlæknis þar sem hún segir það lofsvert að taka tillit til minnihlutahópa en það megi ekki gerast á kostnað annarra.
„Tillitssemi við minnihlutahópa er lofsverð, en það er ótækt að gera það á kostnað kvenna og skólastúlkna, sem þessir klefar voru upprunalega gerðir fyrir. Ein lausn er til á þessu máli og er hún sú að konur fái aftur sína gömlu klefa. Í nýju klefunum myndast þá svigrúm til að sinna fötluðum og öðru fólki með sérþarfir,“ segir Vilborg.
Hjálmar vísar aftur á móti til þess að ef konur hefðu val um annan hvorn klefann þá þurfi að fjölga starfsfólki. „Ef þeir eru notaðir dagsdaglega þá þyrfti í rauninni að ráða fleira starfsfólk til að vera á vöktum í þeim klefum, þannig þá værum við eiginlega komin með svona tvöfalt kerfi. En klefarnir verða gerðir upp og síðan verður ákveðið hvernig þeir verða nýttir,“ segir Hjálmar.