Pútín kom víða við þegar hann flutti ávarp og sat fyrir svörum í dag á Efnahagsráðstefnu austrænna ríkja, EEF, í Vladivostok, við Kyrrahafsströnd Rússlands.
Fullveldið styrkist
„Ég held að ég sé viss um að við höfum engu tapað og eigum ekki eftir að tapa neinu,“ sagði forsetinn. „Ég tel að helsti ávinningur okkar verði sá að fullveldi okkar styrkist. Auðvitað á sér stað skautun, bæði innan lands og utan, en ég trúi því að það verði til gagns.“
Pútín bætti því við að Rússar hefðu ekki átt upptökin að neinum hernaðaraðgerðum í Úkraínu. „Þær hófust eftir valdaránið árið 2014. Upptökin áttu þeir sem höfnuðu friðsamlegri þróun, reyndu að kúga landa sína, stóðu að hverri árásinni á eftir annarri og stefndu að þjóðarmorði í Donbas síðastliðin átta ár.
Eftir að hafa reynt að greiða úr ástandinu á friðsamlegan hátt án árangurs var næsta skrefið að beita vopnavaldi. Allt sem við gerum miðar að því að hjálpa fólkinu í Donbas. Það er skylda okkar, sem við stöndum við allt til enda. Það eflir landið okkar inn á við og styrkir utanríkisstefnu okkar.“
Efast um fullyrðingar Pútíns
Að mati vestrænna fréttaskýrenda fór forsetinn frjálslega með staðreyndir þegar hann fullyrti að Rússar hefðu engu tapað vegna innrásarinnar í Úkraínu. Þvert á móti hafi stjórnvöld viðurkennt að rússneski herinn hafi misst fjölda hermanna og að hergögn hafi farið forgörðum. Þá hafi Rússar misst virðingu vestrænna ríkja og efnahagsvandi þeirra vaxið eftir innrásina í febrúar.
Jákvæð teikn á lofti
Pútín viðurkenndi á ráðstefnunni að Rússar ættu við vissa efnahagserfiðleika að stríða um þessar mundir, en jákvæð teikn væru á lofti.
„Rússar glíma við efnahagslegan, fjármálalegan og tæknilegan yfirgang frá Vesturlöndum,“ sagði forsetinn. „Ég tala um yfirgang. Það er ekki hægt að nota annað orð um framferði þeirra.
Rússneskur gjaldeyris- og fjármálamarkaður hefur verið stöðugur. Verðbólga er á niðurleið. Atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki, innan við fjögur prósent. Sérfræðingar á efnahagssviði og stjórnendur fyrirtækja eru bjartsýnni en í vor. Almennt séð hefur atvinnulífið náð jafnvægi, en við blasa vandamál í ýmsum atvinnugreinum og hjá fyrirtækjum, sérstaklega þeim sem hafa þurft að reiða sig á aðföng frá Evrópuríkjum. Okkur er mikilvægt að taka skjótar ákvarðanir í samvinnu við fyrirtækin og skjóta stoðum undir efnahagslífið.“
Mistókst að einangra Rússland
Vladimír Pútín fullyrti á ráðstefnunni að tilraunir vestrænna ríkja til að einangra Rússa á alþjóðavettvangi hefðu mistekist.
„Það skiptir engu máli hversu mikið sumir leggja á sig til að einangra Rússland, það er ómögulegt, eins og við höfum alltaf sagt,“ sagði Pútín. „Það er nóg að líta á heimskortið. Við ætlum að halda áfram að byggja upp innviði okkar, stækka net vega og járnbrauta og bæta aðstöðu við hafnirnar.
Áherslan verður aðallega lögð á uppbyggingu í austurhluta landsins og bæta tengingu landsvæðanna milli norðurs og suðurs. Við ætlum ekki að gleyma höfnunum við Svartahaf. Þetta opnar tækifæri fyrir rússnesk fyrirtæki að sækja inn á markaði í Íran, á Indlandi, í Miðausturlöndum og Afríku. Og auðvitað fá fyrirtæki frá þessum svæðum tækifæri til að eiga viðskipti við okkur,“ sagði Vladimír Pútín.
Heimskulegt að setja þak á orkuverð
Hann kom enn víðar við í ávarpi sínu á Efnahagsráðstefnu austrænna ríkja í dag. Hann gerði meðal annars lítið úr hugmyndum G7-ríkjanna svonefndu um að setja þak á verðið á olíu frá Rússlandi.
„Þetta er afskaplega heimskuleg hugmynd,“ sagði forsetinn. „Ef einhver reynir að koma þessu á, leiðir það ekki til neins góðs fyrir viðkomandi. Þetta snýst allt um að uppfylla gerða samninga. Hvaða pólitískar ákvarðanir er hægt að taka sem stangast á við viðskiptasamninga? Við munum einfaldlega ekki fallast á þær.
Almennt séð ætlum við ekki að gera neitt sem er andstætt hagsmunum okkar. Í þessu tilviki eru það efnahagslegir hagsmunir. Við ætlum þá ekki að sjá þeim fyrir gasi, olíu eða kolum. Við ætlum að standa að öllu leyti við gerða samninga. Ríkin eru ekki í þeirri stöðu að setja okkur nein skilyrði. Leyfum þeim að hugsa málið.“
Mestallt kornið til Evrópuríkja
Þá fullyrti Pútín að nánast allt kornmeti sem flutt hefur verið frá Úkraínu samkvæmt samningum við Sameinuðu þjóðirnar hafi verið flutt til ríkra Evrópuríkja. Samkvæmt upplýsingum eftirlits- og samræmingarstöðvarinnar í Istanbúl í Tyrklandi, sem fylgist með útflutningnum, hefur rúmlega þriðjungur kornsins endað í Evrópu, tuttugu prósent hafa farið til Tyrklands og þrjátíu prósent til fátækra ríkja víðs vegar um heim.