Sif Atladóttir varð í kvöld leikjahæsta knattspyrnukona Íslands frá upphafi þegar hún lék með Selfyssingum gegn Þrótti í Bestu deild kvenna í Laugardalnum.
Sif lék sinn 337. deildaleik á ferlinum, samanlagt á Íslandi, í Þýskalandi og í Svíþjóð, og sló með því níu ára gamalt met Katrínar Jónsdóttur, sem hefur verið leikjahæst íslenskra knattspyrnukvenna um langt árabil en hún lagði skóna á hilluna árið 2013.
Metið jafnaði Sif í síðasta leik Selfyssinga, gegn ÍBV.
Sif leikur nú sitt 23. tímabil í meistaraflokki en hún spilaði fyrst nýorðin 15 ára gömul með FH í ágúst árið 2000. Hún lék með FH til 2005, að undanskildu einu ári í KR, og spilaði síðan eitt tímabil með Þrótti R. í 1. deild, árið 2006. Það er eina ár hennar á ferlinum utan efstu deildar.
Sif gekk til liðs við Val og lék þar í þrjú ár frá 2007 til 2009 þar sem hún varð Íslandsmeistari öll árin og bikarmeistari einu sinni.
Hún fór í atvinnumennsku til Þýskalands haustið 2009 og lék með Saarbrücken í tvö ár. Þaðan lá leiðin til Svíþjóðar þar sem Sif lék með Kristianstad í ellefu ár og er hún leikjahæsti Íslendingurinn í sænsku úrvalsdeildinni með 183 leiki.
Sif sneri aftur heim til Íslands í vetur og leikur nú með Selfyssingum. Hún hefur jafnframt lengi verið í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu og lék sinn 90. landsleik þegar Ísland mætti Belgíu á EM á Englandi í síðasta mánuði.
Katrín Jónsdóttir lék 336 leiki í deildakeppni á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð á árunum 1991 til 2013. Þar af voru 166 leikir í efstu deild á Íslandi með Breiðabliki, Stjörnunni og Val og 97 leikir með Kolbotn í norsku úrvalsdeildinni. Hún lék einnig eitt tímabil Amazon Grimstad í norsku B-deildinni og svo lék hún þrjú tímabil í sænsku úrvalsdeildinni á lokaspretti ferilsins en þar spilaði hún 58 leiki með Djurgården og Umeå.
Hólmfríður komin í baráttuna á ný
Hólmfríður Magnúsdóttir hefur óvænt blandað sér í baráttuna um leikjametið á nýjan leik. Hún lagði skóna á hilluna í ágúst 2021, fór í barnsburðarleyfi og tilkynnti að hún væri hætt. Þá hafði hún leikið 334 deildaleiki á ferlinum og vantaði tvo til að jafna met Katrínar. En Hólmfríður mætti aftur til leiks gegn ÍBV á dögunum, lék sinn 335. leik, og hún jafnaði við Katrínu Jónsdóttur í kvöld með því að spila sinn 336. leik.
Sandra líka í slagnum
Sandra Sigurðardóttir, landsliðsmarkvörður úr Val, er líka kominn í slaginn um leikjametið og gæti náð því af Sif áður en tímabilinu lýkur. Hún spilaði fyrr í kvöld með Val gegn Keflavík og jafnaði líka metin við Katrínu, því það var hennar 336. deildarleikur á ferlinum. Af þeim eru 327 í efstu deild á Íslandi en þar er Sandra langleikjahæst frá upphafi.
Hallbera átti möguleika
Hallbera Guðný Gísladóttir hefði átt möguleika á að jafna, eða slá met Sifjar í haust, ef hún hefði ákveðið að leika áfram með Kalmar út þetta tímabil í Svíþjóð í stað þess að leggja skóna á hilluna að lokinni Evrópukeppninni á Englandi, eins og hún gerði. Hallbera lauk þar með ferlinum með 332 deildarleiki á ferilskránni en þá voru ellefu leikir eftir af tímabilinu í Svíþjóð.
Leikjahæstu knattspyrnukonur Íslands í deildarkeppni eftir leik Selfoss og Þróttar í kvöld:
337 Sif Atladóttir
336 Katrín Jónsdóttir
336 Hólmfríður Magnúsdóttir
336 Sandra Sigurðardóttir
332 Hallbera Guðný Gísladóttir
307 Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir