Samkvæmt nýjustu könnun Quaest stofnunarinnar fær Lula 52,1 prósent atkvæða og Bolsonaro 47,9. Hann hefur bætt sig um 0,7 prósentustigum frá síðustu könnun og fylgið við Lula dalað um 0,7. Könnun Poder/Data er á svipuðum nótum. Hún sýnir 53 prósenta fylgi við Lula og 47 prósent við Bolsonaro.
Mikill atgangur
Frambjóðendurnir hafa lagt nótt við dag að undanförnu við að sannfæra kjósendur um ágæti sitt og úthúða hvor öðrum. Hvorugur náði að tryggja sér fimmtíu prósenta fylgi í fyrri umferðinni þannig að mikið liggur við að ná í atkvæði þeirra sem studdu aðra frambjóðendur. Svo mikill er atgangur frambjóðendanna og stuðningsfólks þeirra í netmiðlum og raunheimum að margir eru að sögn CNN farnir að óttast það sem kann að gerast að kosningum loknum.
Barist í Minas Gerais
Síðustu sólarhringa hafa þeir Lula og Bolsonaro einkum haldið sig í ríkinu Minas Gerais, hinu næstfjölmennasta í Brasilíu. Það er svokallað óvissuríki þar sem úrslitin geta orðið á hvorn veginn sem er. Það sem herðir baráttuna enn frekar er sú staðreynd að frá árinu 1989 hefur enginn unnið forsetakosningar í Brasilíu án þess að sigra í Minas Gerais.
Stuðningsfólk beggja þykir hafa farið yfir strikið í baráttunni, til dæmis Nikolas Ferreira, ungur strangtrúaður íhaldsmaður sem kjörinn var á þing á dögunum. Hann segist vera í stríði við það sem hann kallar hina þögulu ógnun af kommúnismanum. Á kosningafundi fyrir stuttu spurði hann hvort fólk ætlaði virkilega snúa aftur til gömlu tímanna. „Já eða nei við þungunarrofi?“ spurði Ferreira. „Já eða nei við því að lögleiða eiturlyf?“ og uppskar mikil fagnaðarlæti viðstaddra.
Spurning um líf eða dauða
Nýbökuð þingkona, Celia Xakriabá, berst fyrir kjöri Lula í Minas Gerais. Hún er fyrsti frumbygginn sem kosinn er á þing í héraðinu og segist hafa trú á að sögulegir tímar séu í nánd. Hún segir að umhverfismál skipti mestu í kosningabaráttunni og kveðst enga trú hafa á að Jair Bolsonaro láti sig þau neinu máli skipta nái hann endurkjöri.
„Við frumbyggjarnir höfum fengið að kynnast því undanfarin fimm hundruð ár hvað barátta er,“ segir Celia Xakriabá. „Hvernig getum við kosið mann sem hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að afmarka svo mikið sem þumlung af landi frumbyggja? Fjöldi kjósenda fylgist með pólitískum slagsmálum frambjóðendanna en hefur enn ekki áttað sig á að þessar kosningar eru spurningin um líf eða dauða. Jörðin er að eyðileggjast. Það skiptir höfuðmáli fyrir mannkynið að snúa þróuninni við.“
Fátækum fjölgar
Rúmlega 215 milljónir búa í Brasilíu. Alls konar erfiðleikar hafa hellst yfir þjóðina undanfarin ár, ekki síst efnahagslegir. Verðbólga náði níu prósentum síðsumars með þeim afleiðingum að verð á nauðsynjavörum hækkar. Sífellt fjölgar í hópi fátækra. Þriðjungur landsmanna þurfti að hafa fyrir því að verða sér úti um mat síðastliðið ár samkvæmt Gallúpskönnun. Þrátt fyrir þetta er útlit fyrir 2,7 prósenta hagvöxt í landinu á þessu ári og ástand er sagt fara batnandi á vinnumarkaði. Eigi að síður sögðu hátt í sex af hverjum tíu í könnun Gallúps í síðasta mánuði að þeir ættu erfitt með að fá vinnu á sínum heimaslóðum.
Jair Bolsonaro hefur lofað að efla námuiðnaðinn í Brasilíu nái hann kjöri. Hann ætlar að einkavæða ríkisfyrirtæki, auka sjálfbærni í orkugeiranum og lækka orkuverð.
Lula hefur verið hógværari í kosningaloforðum að sögn fréttaskýrenda. Helst að hann ætli að hefja þjóðina til sama vegs og virðingar og hún naut að hans sögn meðan hann gegndi forsetaembættinu á árunum 2003 til ’11. Það kann þó að reynast þrautin þyngri þar sem aðstæður eru gjörbreyttar í Brasilíu frá því að hann var forseti.
Reiðir fram fátækrastyrk
Lula sækir fylgi sitt einkum til fátækra Brasilíumanna. Bent hefur verið á að ef kjörsókn verður lítil á sunnudaginn sé það einkum fátæka fólkið sem situr heima. Bolsonaro hefur reynt að ná til hópsins með því að lofa honum sérstökum fátækrastyrk, svonefndum Auxilio Brasil. Hann nemur 600 ríölum, um það bil sextán þúsund krónum. Forsetinn hefur hins vegar ekki nefnt hvar hann ætlar að finna það fé.
Þó svo að Jair Bolsonaro sé undir í skoðanakönnunum vonar hann og hans fólk það besta. Niðurstöður skoðanakannana voru honum óhagstæðar fyrir fyrri umferð forsetakosninganna. Þegar talið hafði verið upp úr kössunum reyndist fylgið við hann vera mun meira en gert hafði verið ráð fyrir. Hann sagði að ekkert væri að marka skoðanakannanir. Þær væru falsvísindi og við það stendur hann enn.