Sundkappinn Anton Sveinn McKee syndir til úrslita á HM í 50 metra laug í 200 metra bringusundi í dag, eftir að hann kom í mark á næstbesta tímanum í undanúrslitunum í gær. Anton kom í mark á 2.08,74 og bætti með því eigið Íslandsmet sem var búið að standa í nokkrar klukkustundir.
Anton var með fimmta besta tímann í undanrásunum fyrr um daginn þegar hann kom í mark á 2.09,69 sem var bæting á eigin Íslandsmeti, en gerði enn betur síðar um daginn og bætti aftur eigið Íslandsmet, nú um 0,95 sekúndu. Áætlað er að sundið hefjist klukkan 17.28.