Perry Mclachlan annar þjálfara Þórs/KA var svekktur eftir 1:0-tap gegn Aftureldingu í Bestu deild kvenna á Akureyri í kvöld.
„Vonbrigði að ná ekki að skora. Frammistaðan var frábær fyrir utan að við skoruðum ekki, sem er auðvitað mikilvægt í fótbolta. Afturelding varðist virkilega vel og við vorum ekki nægilega klínískar.
Í fyrri hálfleik gekk okkur vel að komast upp hægri kantinn en þá fannst mér vanta að fleiri kæmu sér inn í teiginn til að nýta okkur stöðurnar sem við komumst í. Af einhverjum ástæðum nýttum við okkur það ekki jafn vel í síðari hálfleik að sækja upp hægri kantinn en þá var færanýtingin ennþá vandamál.“
Þór/KA er í fallbaráttu og sigur Aftureldingar hleypti heldur betur lífi í þá baráttu.
„Það fallega við fótboltann er að það er alltaf næsti leikur. Við erum í fallbaráttu og það er mikilvægt að við áttum okkur á því. Við verðum að átta okkur á því að það er verk að vinna í næstu sex leikjum. Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur að það eru nægilega mikil gæði og sprengikraftur í þessu liði til að koma okkur úr þessum vanda.
Þetta verður andleg barátta, bæði fyrir leikmenn og alla í kringum félagið. Það verður andleg barátta að ná í úrslit og spila eins og við getum spilað. Ef maður horfir á hópinn, nöfnin á pappír, þá er þetta stórkostlegt fótboltalið. Ég held að leikmennirnir þurfi bara að átta sig á því hversu gott liðið er. Þetta er andleg barátta.“