Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir frumvarpinu sem allir þingmenn flokksins nema ráðherrar og forseti Alþingis standa að. Hann benti á að stjórnarskráin tryggi félagafrelsi og kveði á um að engan megi skylda til að vera í félagi en þó megi kveða á um slíka skyldu sé það nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna. „Þrátt fyrir þessi skýru ákvæði 74. greinar stjórnarskrárinnar er félagafrelsi í raun ekki virt á íslenskum vinnumarkaði. Almenn löggjöf takmarkar rétt manna til að velja sér félag eða standa utan félags og þar er gengið lengra en í nágrannalöndum okkar.“ Óli Björn sagði að úrskurðir dómstóla hefðu ekki tekið mið af stjórnarskrárbreytingum frá 1995 sem áttu að tryggja félagafrelsi. Hann sagði lög um opinbera starfsmenn leggja greiðsluskyldu á starfsfólk hvort sem það veldi að vera í stéttarfélagi eða ekki en að þetta væri óskýrara í lögum um almennan markað.
Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja rétt launamanna til að velja sér stéttarfélag, banna forgangsréttarákvæði í kjarasamningum, afnema greiðsluskyldu og verja rétt launamanna til að standa utan stéttarfélaga, sagði Óli Björn. „Ólíkt öðrum vestrænum ríkjum hefur vinnumarkaðslöggjöfin hér á landi ekki tekið fullnægjandi breytingum til að tryggja félagafrelsi á íslenskum vinnumarkaði.“