Veðbankar og skoðanakannanir í Bretlandi voru með rétta niðurstöðu í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins. Liz Truss hlaut 57,4 prósent atkvæða flokksbundinna Breta. Rizi Sunak, mótherji hennar fékk 42,6 prósent.
Þakkaði Boris Johnson sérstaklega
Liz Truss var að vonum glöð í bragði þegar hún steig í pontu, þakkaði stuðninginn og kvað það heiður að hafa verið valin leiðtogi flokksins. Þá þakkaði hún 1922 nefndinni – félagsskap óbreyttra þingmanna Íhaldsflokksins, – formanni flokksins og flokknum sjálfum fyrir að hafa skipulagt vel eitthvert lengsta atvinnuviðtal í sögunni. Einnig taldi hún upp fjölskyldu sína, keppinautana um leiðtogaembættið og síðast Boris Johnson fráfarandi forsætisráðherra sem hún sagði hafa komið Brexit í gegn, malað Jeremy Corbyn, dreift bóluefnunum og staðið uppi í hárinu á Vladimír Pútín.“ „Boris,“ sagði hún, „þú ert dáður allt frá Kænugarði til Carlisle.“
Veit af efnahagserfiðleikum Breta
Hinn nýi leiðtogi Íhaldsflokksins og verðandi forsætisráðherra Bretlands kvaðst í þakkarræðunni gera sér grein fyrir efnahagserfiðleikunum sem Bretar standa frammi fyrir um þessar mundir. Hún sagðist ætla að leggja fram djarfmannlega áætlun á næstunni til að takast á við þá, lækka skatta, fá hagkerfið til að vaxa á ný og taka á síhækkandi verðlagi, sér í lagi reikningum vegna húshitunar. Hún hét því að hún og stjórn hennar, sem senn verður kynnt, ætlaði svo sannarlega að taka slaginn.
Næg verkefni framundan
Ljóst er að verkefnin verða ærin fyrir Liz Truss og stjórn hennar. Verðbólga er á uppleið í Bretlandi, efnahagslægð blasir við, verkföll, flóttamannastraumur yfir Ermarsund frá Frakklandi, heimastjórnin í Skotlandi hyggur á atkvæðagreiðslu um sjálfstæði á ný og þannig mætti áfram telja. Mál málanna er samt síhækkandi verð á rafmagni og gasi til heimila og fyrirtækja.
Leiðtogi stjórnarandstöðunnar gagnrýninn
Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins og stjórnarandstöðunnar á breska þinginu óskaði Liz Truss til hamingju með sigurinn þegar úrslitin lágu fyrir. Hann notaði einnig tækifærið til að skjóta föstum skotum á hana. Starmer sagði meðal annars að landsmenn hefðu heyrt meira frá hinum verðandi forsætisráðherra í sumar um nauðsyn þess að lækka skatta á fyrirtæki en að koma almenningi til hjálpar vegna síhækkandi verðlags á nauðsynjavörum. Þetta sagði hann að sýndi að ekki aðeins að hún væri úr tengslum við raunveruleikann heldur stæði hún ekki með hinum vinnandi stéttum.
Starmer og Liz Truss fá tækifæri til að skiptast á skoðunum í fyrirspurnatíma neðri málstofunnar á miðvikudag. Hún tekur formlega við forsætisráðherraembættinu í fyrramálið eftir að hafa fengið blessun Elísabetar drottningar í Balmoralkastala í Skotlandi. Skömmu fyrir það tilkynnir Boris Johnson drottningu formlega afsögn sína skömmu áður.
Truss verður fimmtándi forsætisráðherrann frá því að drottning kom til valda árið 1952. Hún er þriðja konan á sem gegnir embættinu, á eftir Margareth Thatcher og Theresu May. Allar eru þær úr Íhaldsflokknum.
Vinstra megin við Verkamannaflokkinn
Liz Truss heitir fullu nafni Mary Elizabeth. Hún er 47 ára, dóttir Johns Truss, fyrrverandi latínuprófessors við háskólann í Leeds, og Pricillu Mary Truss, hjúkrunarfræðings og kennara sem tók virkan þátt í baráttu gegn kjarnorkuvopnum á árum áður. Dóttir þeirra hefur sagt að pólitískar skoðanir foreldranna séu vinstra megin við Verkamannaflokkinn. Sjálf starfaði Liz Truss með Frjálslynda lýðræðisflokknum á námsárunum í Oxford áður en hún gekk í raðir íhaldsmanna. Á ráðstefnu flokksins árið 1994 lýsti hún því yfir að hún teldi réttast að leggja konungsríkið niður. Frjálslyndir demókratar tryðu á jafna möguleika allra. Enginn ætti að vera fæddur til valda.
Truss er gift Hugh O’Leary endurskoðanda og eiga þau tvær dætur á unglingsaldri.
Skiptar skoðanir á nýja leiðtoganum
Að sögn fréttaskýrenda eru skoðanir skiptar á Liz Truss. Stuðningsfólkið segir að hún sé hörkutól, klárari en fólk heldur almennt, hún sé staðföst en yfirleitt vanmetin. Andstæðingarnir, og jafnvel sumir pólitískir samherjar, segja hana dálítið skrýtna. Hún eigi til að segja eitt og annað óheppilegt og sé jafnvel taktlaus í félagslegu tilliti.
Sjálf hefur hún lýst yfir aðdáun sinni á Margareth Thatcher. Einhverju sinni sagði hún frá því í viðtali að hún hafi verið beðin um að leika Thatcher í átta ára bekk.
Járnfrúin og Tin Lizzy
Liz Truss hefur stundum verið líkt við Margareth Thatcher. Sjálf segir hún að því fari víðs fjarri að þær séu af sama meiði. Thatcher var á sínum tíma kölluð járnfrúin, the iron lady. Breskir spaugarar eru að sjálfsögðu búnir að finna uppnefni á forsætisráðherrann tilvonandi og kalla hana Tin Lizzy með vísan í nafn írsku rokksveitarinnar Thin Lizzy.