Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu og kennari við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík, segir mikilvægt að gera skipulagt íþróttastarf aðgengilegra og þægilegra fyrir kynsegin og innflytjendur í samtali við mbl.is í dag.
mbl.is sló á þráðinn til Margrétar í dag til að ræða við hana um niðurstöður Ánægjuvogarinnar 2022 en könnunin sýnir ánægju nemenda á unglingastigi í grunnskóla af íþróttaiðkun. Könnunin er unnin af Rannsóknum og greiningu og niðurstöður úr henni voru kynntar í dag.
„Það er mikilvægt að passa upp á að íþróttirnar séu fyrir alla og halda börnum þar sem lengst. Við þörfum að ná enn betur til þeirra hópa sem eru ekki í íþróttastarfinu eins og börn sem eru af erlendum uppruna og þau sem skilgreina sig sem kynsegin,“ segir Margrét.
Út frá niðurstöðum könnunarinnar má sjá að þátttaka barna í þessum hópum er talsvert minni en öðrum.
Spurð hvað það sé sem veldur þessu segir Margrét margt spila inn í og að það sé okkar hlutverk að tryggja það að þessir krakkar upplifi sig velkomna í þetta íþróttastarf. Þá segir hún sérstaklega mikilvægt að tryggja að krakkar af erlendum uppruna viti af íþróttastarfinu og að það sé gert aðgengilegt fyrir þá.
Niðurstöður hjá stelpum og strákum eru mjög svipaðar í Ánægjuvoginni hvað varðar þátttöku og ánægju í íþróttum og þakkar Margrét það góðri jafnréttisstarfsemi hjá íþróttafélögum. Segir hún mikilvægt að hið sama sé gert fyrir kynsegin hópa og öll börn.
Íþróttastarfsemi mikilvæg fyrir lýðheilsu
Segir hún það mikilvægt fyrir alla íþróttahreyfinguna á Íslandi að fá upplýsingar um stöðuna á íþróttaiðkun og áhrif hennar á börn á landinu. Að mati Margrétar er það fagnaðarerindi að sjá að brottfall úr íþróttum hefur ekki aukist eftir kórónuveirufaraldurinn.
Hún bendir á að samkvæmt könnuninni líður börnum sem eru virk í íþróttastarfi með íþróttafélagi að jafnaði töluvert betur en börnum sem eru það ekki. Þar að auki eru börn sem eru í skipulagðri íþróttastarfsemi mun ólíklegri til að nota vímuefni, nikótín eða orkudrykki, samkvæmt könnuninni.
„Við sjáum það hjá börnum sem eru virk í skipulögðu starfi að þau upplifa sig hamingjusamari, upplifa andlega og líkamlega heilsu sína betri og upplifa sig minna einmana og þeim vegnar þar af leiðandi betur.“
Besta forvörnin
Aðspurð segir Margrét það mjög mikilvægt að virkja öll börn í íþróttastarfi og að skipulögð íþróttastarfsemi sé besta forvörnin á Íslandi. „Okkur hefur tekist að draga úr neyslu vímuefna hjá börnum og ungmennum og þar hafa íþróttir og allt skipulagt starf í rauninni spilað mjög stórt hlutverk,“ segir Margrét og ítrekar forvarnargildi skipulagðs starfs og mikilvægi lýðheilsu hjá börnum.
Vegna þessa finnst Margréti mikilvægt að stjórnvöld átti sig á mikilvægi íþróttastarfa og stuðli að því að viðhalda þeim. Segir hún það ekki hægt að byggja starfið upp á sjálfboðaliðum og nauðsynlegt sé að tryggja nægilegt fjármagn til íþróttafélaganna. Að hennar mati eru íþróttastofnanir einar af mikilvægustu stofnunum í samfélaginu og því skrítið að koma fram við þau eins og sjálfboðastarf.
Segir hún verðmæti niðurstöðu Ánægjuvogarinnar felast í því að hún staðfestir mikilvægi íþrótta og það forvarnargildi sem það gegnir.