Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að styrkja samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfsemi um átta milljónir króna á ári. Þannig verði hægt að bregðast við aukinni eftirspurn.
Íþróttafélög og iðkendur nýta sér samskiptaráðgjafa í auknum máli við úrlausn mála sem tengjast áreitni, ofbeldi, einelti og samskiptavanda í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Sjötíu og níu tilkynningar
Samskiptaráðgjafi afhenti mennta- og barnamálaráðherra í gær ársskýrslu yfir starfsemina á síðasta ári.
Tilkynningum til Samskiptaráðgjafa hefur fjölgað úr 24 árið 2020 í 79 árið 2021. Fimmtíu og ein tilkynning hefur borist það sem af er ári 2022.
Flestar tilkynningar varða kynbundna eða kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Næstflestar tilkynningar eru vegna eineltis.
Stuðlar að vellíðan og öryggi
„Samskiptaráðgjafi er mikilvægur vettvangur til að stuðla að vellíðan og öryggi iðkenda í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Viðbrögðin hafa verið vonum framar og þau sýna að þörf sé á úrræðinu. Styðja þarf við starfsemina nú til að gera henni kleift að mæta aukinni eftirspurn,“ er haft eftir Ásmundi Einari í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
Þar kemur jafnframt fram að samskiptaráðgjafi hafi hafið störf í í ársbyrjun 2020 að frumkvæði þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra.
Markmiðið sé að stuðla að því að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.