Slys algengust á djammtíma
Innviðaráðherra skipaði starfshóp um smáfarartæki í byrjun þessa árs og skilaði hópurinn af sér skýrslu um úrbætur og breytingar á lögum í sumar. Í skýrslunni segir meðal annars:
„Samkvæmt gögnum úr slysaskrá Samgöngustofu hefur slysum á gangandi og hjólandi vegfarendum, þar með talið á rafhlaupahjólum, fjölgað mikið með tilkomu rafhlaupahjóla og hlutdeild þeirra í slysakostnaði á Íslandi rauk upp árið 2021. Reykjavíkurborg er með í vinnslu nánari skoðun á öryggi vegfarenda á rafhlaupahjólum. Þar kom fram að alvarleg slys eru algengust á þeim tíma vikunnar sem kalla má djammtíma, um kvöld og nætur á föstudögum og laugardögum. Nánari skoðun á fjölda slasaðra í mismunandi flokkum sýnir að 39% alvarlega slasaðra á rafhlaupahjóli lenda í slysi á örfáum klukkustundum um helgar. Það er mun hærra hlutfall en í nokkrum öðrum flokki.
40% undir áhrifum
Greining bráðamóttöku Landsspítalans árið 2020 styður við þetta, en 40% þeirra sem þangað leituðu (18 ára og eldri) voru undir áhrifum þegar slysið átti sér stað. Of mörg börn slasast á rafhlaupahjólum á Íslandi. Um 45% þeirra sem slösuðust á rafhlaupahjóli árið 2020 og leituðu til neyðarmóttöku voru undir 18 ára aldri. Sérstaka athygli vekur að þriðjungur af þeim voru undir 10 ára aldri en rafhlaupahjól eru að jafnaði hönnuð fyrir notendur sem eru 14 ára og eldri. Mjög ung börn ráða ekki yfir færni til aksturs vélknúinna ökutækja og fá yfirleitt ekki umferðarfræðslu í skólum. Það er því knýjandi að stjórnvöld setji aldursmörk fyrir notkun rafhlaupahjóla“. Tilvitnun lýkur.
Matsatriði hvort ófremdarástand ríki
Ætla mætti, samkvæmt þessu, að hálfgert ófremdarástand hafi ríkt í rafskútumálum höfuðborgarsvæðinu síðustu tvö til þrjú ár og að kunnátta þeirra sem nota rafskútur á lögum og reglum sé takmörkuð. Jónas Birgir Jónasson lögfræðingur hjá Skrifstofu samgöngumála í innviðaráðuneytinu átti sæti í starfshópnum sem skilaði af sér í sumar. Hann tekur ekki svo djúpt í árinni:
„Það er kannski matsatriði hvort að um sé að ræða ófremdarástand , en það er alla vega hægt að segja að greining Bráðamóttöku Landspítalans sýni að það eru allt of margir sem eru undir áhrifum þegar þeir leita til neyðarmóttöku vegna rafhlaupahjólaslysa“ segir Jónas. „Það er of mikið af börnum sem eru að slasast á rafhlaupahjólum. Og slysin á svokölluðum djammtíma, eða á milli klukkan 23 og 04 á laugardags- og föstudagskvöldum/-nóttum eru allt of mörg og í engu samhengi við notkunarhlutfallið á þessum tíma og á þessum tækjum“.
Sektir fyrir að aka drukkin hækkaðar
Starfshópur Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðarráðherra lagði fram tillögur til úrbóta í sex liðum:
1. Nýr flokkur ökutækja: Nýr ökutækjaflokkur smáfarartækja verði innleiddur í umferðarlög. Í reglugerð verði að finna nánari flokkun smáfarartækja eftir gerð og eiginleikum. Miðað verði við að smáfarartæki séu ekki hönnuð til hraðari aksturs en 25 km/klst. Hjól sem eru yfir settum mörkum verði ekki leyfileg í umferð.
2. Ölvun ökumanna: Sett verði hlutlæg viðmið sem feli það í sér að refsivert verði að stjórna smáfarartæki ef magn áfengis er meira en 0,5 ‰ í blóði ökumanna, eða 25 mg vínanda í hverjum lítra lofts sem er sambærilegt við mörk við akstur vélknúinna ökutækja. Sektir vegna brota verði hækkaðar í forvarnarskyni og miðað við að ljúka málum á staðnum með greiðslu sektar, fremur en að handtaka ökumenn og færa á lögreglustöð til skýrslutöku og blóðrannsóknar, ef hjá því verður komist.
3. Aldur ökumanna: Aldursmörk ökumanna aflknúinna smáfarartækja verði 13 ár en hjálmaskylda miðist við yngri en 16 ára.
4. Almennt bann við því að breyta hámarkshraða: Lagt verði bann við breytingum á hraðastillingum aflknúinna smáfarartækja, léttra bifhjóla og rafmagnsreiðhjóla.
5. Færni ungmenna í umferð: Í 112. grein umferðarlaga segir að umferðarfræðsla skuli fara fram í leik-, grunn- og framhaldsskólum og að ráðherra sem fer með fræðslumál ákveði nánari tilhögun fræðslu í aðalnámskrá. Til að tryggja fylgni við lög er lagt til að ráðherra beiti sér fyrir því að umferðarfræðsla verði hluti af aðalnámskrá.
6. Akstur á götum: Ef tillögur starfshópsins hvað varðar ölvun við akstur og aldursmörk ganga eftir telur hópurinn að leyfa skuli akstur rafknúinna smáfarartækja í almennri umferð á vegum þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. eða lægri, enda getur veghaldari lagt sérstakt bann við umferð þeirra á einstökum vegum eða vegarköflum, sé ástæða til.
Ráðherra samþykkti allar tillögurnar
Jónas Birgir segir að allt frá því að skýrslan kom út í júní þá hafi verið unnið að því í ráðuneytinu að skrifa frumvarp. „Það hefur þurft að fara í gegnum þann feril sem að svona mál þurfa að fara í gegnum. Þetta tekur nokkurn tíma og það þarf líka að vanda til verka. Innviðarráðherra stefnir að því að leggja fram frumvarp núna á þessu ári.
Í frumvarpinu er m.a. lagðar til breytingar á umferðarlögum sem snúa að smáfarartækjum og ráðherra féllst í raun á allar þessar tillögur starfshópsins og ætlar þá að færa þessar breytingar í lög sem snúa að lagabreytingum og beita sér fyrir því að umferðarfræðsla verði hluti af aðalnámskrá í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum“ segir Jónas Birgir Jónasson.
Viðtalið við Jónas Birgi og umfjöllun Spegilsins í heild má heyra í spilaranum hér að ofan.