„Það sem stendur upp úr er hve kvennaknattspyrnan á Íslandi er komin langt, bæði hvað styrkleika varðar og hve margir styðja við bakið á liðinu – ólíkt því sem gerist hjá mörgum öðrum þjóðum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Hún sótti leik Íslands og Ítalíu í gær ásamt dóttur sinni Signýju sem æfir fótbolta með Víkingi.
Lilja bendir á að íslenska kvennalandsliðið sé í 17. sæti á styrkleikalista FIFA, sem sé út af fyrir sig stórt afrek sem og að gera jafntefli við lið eins og Ítalíu. „Stuðningsmenn íslenska liðsins voru svekktir að fá jafntefli við Ítalíu. Það hefði þótt saga til næsta bæjar fyrir tíu árum síðan.“
Hún segir kvennaboltann kominn mikið lengra hvað varðar stuðning frá almenningi. Um tvöþúsund Íslendingar voru á leiknum gegn Ítalíu í gær en um 150 Ítalir. „Það er auðvitað mjög ánægjulegt að sjá stuðninginn aukast svona,“ segir Lilja.
Þýðingamikið að geta horft ásamt þúsundum
Þá segir hún umgjörð KSÍ í kring um mótið vera glæsilega. „Það var auðvitað mjög mikilvægt þegar þau tóku þá ákvörðun að jafna laun þeirra sem spila með karla- og kvennalandsliðinu. Það er í takt við þann árangur sem náðst hefur á Íslandi, að vera það ríki þar sem mest jafnrétti ríkir á milli kynjanna,“ segir Lilja enn frekar og vísar í nýlega skýrslu Alþjóðlegu efnahagsviðskiptastofnunarinnar (World Economic Forum) þar sem Ísland er, þrettánda árið í röð, efst á lista yfir lönd hvað kynjajafnrétti varðar.
Lilja sem einnig er ráðherra ferðamála, ásamt því að vera ráðherra viðskiptamála, segir árangur kvennalandsliðsins sem og ítrekaðar viðurkenningar á jafnréttismálum á Íslandi vera frábæra landkynningu.
„Þetta eru hetjur ungu stelpnanna okkar – þetta eru hetjurnar okkar,“ segir Lilja, spurð út í þýðingu þess að geta farið með dóttur sína sem æfir fótbolta að fylgjast með fyrirmyndum sínum á stórmóti. „Að geta komið og fylgjast með leiknum ásamt þúsundum, þetta hefur svo mikið að segja að hafa svona fyrirmyndir.“
Tilkomumikil jafnréttisbarátta Söru Bjarkar
„Bæði dáist ég að Söru Björk sem knattspyrnukonu en að hún hafi einnig verið að berjast fyrir jafnréttismálum innan Lyon og rutt brautina varðandi réttindi óléttra íþróttakvenna finnst mér aðdáunarvert. Það sýnir hvað við erum komin langt í þessari baráttu, að okkar knattspyrnukonur eru að berjast fyrir jöfnum réttindum á erlendri grundu. Mér finnst þetta rosalega tilkomumikið hjá henni Söru og ég styð hana hundrað prósent,“ segir Lilja.
Beinn ávinningur af sterkum fyrirmyndum
Hún bætir við að knattspyrnuiðkun á Íslandi, hvort sem er hjá stúlkum eða drengjum, sé með allra mesta móti á heimsvísu. Forvarnargildi skipulagðrar íþróttastarfsemi og ávinningur fyrir heilsu og námsárangur barna sé ótvíræður. Það sé því beinn þjóhagslegur ávinningur af fyrirmyndum eins og í kvennalandsliðinu. „Það er svo rosalega mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að styðja við bakið á íþróttahreyfingunni, bæði yngri flokka starfsemina en líka meistaraflokka og landsliðin. Þar verða fyrirmyndirnar til og það hvetur aðra áfram.“
Spurð hvort að hún sakni þess að vera íþróttamálaráðherra svarar Lilja að íþróttir séu auðvitað vera menningu svo að hún geti bara enn haldið í það, og hlær.
Þá segir Lilja stuðning atvinnulífis við landsliðið dýrmætan. Hún segist þakklát Icelandair sem stutt hefur dyggilega við bakið á liðinu. Spurð hvort að hún telji að atvinnulífið taki minni þátt núna en þegar karlalandsliðið fór á tvö síðustu stórmót segist Lilja ekki hafa lagst yfir það en það sé auðvitað eitthvað sem væri áhugavert að skoða.