Hugbúnaðarfyrirtækið Púls Media hefur skorið upp herör gegn þeirri þróun undanfarinna ára að sífellt meira auglýsingafé leitar til útlanda vegna vinsælda Facebook og Google sem auglýsingamiðla.
Eins og sjá má á meðfylgjandi korti er um milljarða króna að ræða ár hvert. Viðskiptin skila Íslandi engum skatttekjum.
Helgi Pjetur framkvæmdastjóri Púls Media segir að aðeins um þriðjungur af því birtingarfé sem innlend fyrirtæki nota í vefauglýsingar endi hjá innlendum auglýsingamiðlum. Markmið Púls sé að hjálpa innlendu miðlunum að ná fyrri styrk.
Vinna með níu miðlum
Lausnin er að hans sögn nýr auglýsingamarkaður Púls í sjálfsafgreiðslu þar sem auglýsendur geta keypt vefauglýsingar á níu íslenskum auglýsingamiðlum. Miðlarnir eru Vísir.is, Já.is, Mannlíf, Kjarninn, Fótbolti.net, Fasteignir.is, Akureyri.net og fréttaöppin Púlsinn og Lumman.
Helgi segir að eitt stærsta vandamálið hafi hingað til verið að ekki hefur verið hægt að kaupa vefauglýsingar á innlendum miðlum í sjálfsafgreiðslu líkt og hægt er að gera hjá erlendu miðlunum. Lítil og meðalstór fyrirtæki hafa nýtt sér þá þjónustu í stórum stíl undanfarin ár að sögn Helga.
Byrjaði fyrir ári
Helgi segir í samtali við Morgunblaðið að þróun Púls auglýsingamarkaðarins hafi byrjað fyrir um ári. „Við eigum sjálfir smáforritin Púlsinn og Lummuna og vorum að leita leiða til að gera snjallari auglýsingar fyrir okkar miðla til að einfalda sölustarfið. Við vildum gera kerfi sem byggi til langtímasamband við auglýsendur,“ segir Helgi.
„Þegar við skoðuðum þetta betur og sáum sláandi tölur um útstreymi auglýsingafjár úr landi datt okkur í hug að sameina auglýsingamiðlana í eitt kerfi þar sem fólk gæti þjónustað sig sjálft.“
Góðar viðtökur
Helgi segir að viðtökur hafi verið góðar og nú þegar séu fyrirtæki byrjuð að nýta sér þjónustuna.
Hann segir það hafa komið á óvart hve miðlarnir voru móttækilegir fyrir kerfinu. „Þegar ég fór að tala við miðlana voru þeir langflestir til í að vera með og hjálpa til við að laga ástandið á markaðnum.“
Helgi segir að einn helsti vandinn við íslenska vefauglýsingamarkaðinn sé hvað margar mismunandi stærðir af auglýsingaborðum eru í gangi hjá miðlunum. „Þetta eru 20-30 mismunandi stærðir. Það þýðir að það er mjög dýrt fyrir smærri auglýsendur að laga auglýsingar að hverjum miðli.“
Hann segir að Púls Media hafi til einföldunar ákveðið að einbeita sér að þremur algengustu vefborðastærðunum.
Flöt álagning
Um verðlagningu segir Helgi að Púls Media sé með flata álagningu en verð auglýsinga sé annars ákvarðað í samstarfi Púls og miðlanna. Segir hann markaðslögmálin spila þar inn í. Ef mikil eftirspurn er eftir auglýsingasvæðum á ákveðnum miðli hækki verðið, en ef hún er lítil þá lækki verðið. Þannig sé Púls Media eins og kauphöll sem laði að sér kaupendur og seljendur.
„Bæði miðlar og auglýsendur fá aðgang að allri tölfræði í viðmótinu og sjá nákvæmlega hve mikið er smellt á eða horft á auglýsingarnar.“
Helgi segist vonast eftir örri fjölgun viðskiptavina. „Í næstu útgáfu viljum við bæta við markhópum. Þannig geti viðskiptavinir valið t.d. íþróttaáhugafólk og auglýst bara á þeim miðlum eða undirsíðum sem fjalla um íþróttir.“
Hlaðvarps-, útvarps- og umhverfisauglýsingar eru einnig á teikniborðinu. „Við erum nú þegar að vinna með Bestu deild karla og kvenna og Billboard-skiltafyrirtækinu við að birta snjallar auglýsingar í borginni. T.d. getum við auglýst leiki hjá KR í boltanum eingöngu í Vesturbænum tveimur dögum fyrir leik. Kerfið er beintengt við KSÍ og uppfærast borðarnir sjálfvirkt ef leikjum er t.a.m. frestað vegna landsleikja og bikarkeppna.“
Uppfærslan fer þannig fram að kerfið sækir gögn á miðlara auglýsandans og skiptir þeim út fyrir nýjar upplýsingar á réttum tíma. „Vonandi getum við sett þessa þjónustu líka í sjálfsafgreiðslu með tímanum.“
Samkeppnishæft í verði
Spurður hvort Púls Media sé samkeppnishæft í verði við Google og Facebook segir Helgi að svo sé. „Auglýsingar fyrir þrengri markhópa ættu að vera ódýrari hjá okkur en þeim útlensku. Þeir eru ódýrastir í mjög breiðum markhópum, en verða dýrari þegar hópurinn þrengist.“
Að lokum segir Helgi að minni fyrirtæki sem ekki hafi mikið fé til að eyða í hönnun geti notfært sér sniðmát sem Púls Media útvegar. Þannig geti fyrirtæki sjálf búið til auglýsingar með einföldum og auðveldum hætti.