Öll 12. umferð í Bestu deild kvenna í knattspyrnu verður spiluð í dag svo fimm leikir eru á dagskrá.
KR gerir sér ferð til Vestmannaeyja í dag og mætir ÍBV. Síðast þegar liðin mættust vann ÍBV leikinn 2:0 á Meistaravöllum. ÍBV er fyrir miðju deildarinnar í 5. sæti með 18 stig. KR er hinsvegar í næst síðasta sæti með 7 stig. KR hefur fengið á sig flest mörk í sumar en þær hafa fengið á sig 41 mark.
Þór/KA og Afturelding mætast á Akureyri í dag í botnbaráttunni. Afturelding er í neðsta sæti deildarinnar með 6 stig og Þór/KA tveim sætum ofar með 10 stig. Þór/KA vann síðasta leik liðana 2:1 í maí.
Keflavík fær erfiða heimsókn en Íslandsmeistararnir í liði Vals mæta þangað í dag. Valur er í topp sæti deildarinnar með 29 stig, 2 stigum meira en Blikar í öðru sæti. Keflavík tapaði síðasta leik liðanna 0:3 og í fjórum af síðustu fimm leikjum liðsins hafa þær fengið á sig 3 mörk. Valur hefur einungis fengið á sig 7 mörk í allt sumar og bara tapað einum leik.
Stjarnan og Breiðablik mætast í hörku leik í Garðabæ í dag en liðin eru í 2. og 3. sæti deildarinnar. Breiðablik er tveim stigum frá toppliði Vals og verða að vinna til að missa Val ekki lengra frá sér. Stjarnan er fjórum stigum frá Breiðablik og geta því ekki tekið annað sætið af þeim í dag.
Að lokum mætir lið Selfoss í Laugardal og mætir Þrótti Reykjavík. Þróttur er í 4. sæti deildarinnar, 4 stigum frá liði Stjörnunnar og eiga leik inni. Selfoss er í 6. sæti með 15 stig. síðast þegar liðin mættust í maí endaði leikurinn í 1:1 jafntefli.
ÍBV – KR klukkan 17.30
Þór/KA – Afturelding klukkan 17.30
Keflavík – Valur klukkan 19.15
Stjarnan – Breiðablik klukkan 20.00
Þróttur – Selfoss klukkan 20.00